Innlent

Spá snjókomu um helgina

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það á að snjóa fyrir vestan, norðan og austan um helgina.
Það á að snjóa fyrir vestan, norðan og austan um helgina. Vísir/Vilhelm
Á vef Veðurstofu Íslands er vakin athygli á því í athugasemd veðurfræðings að spáð er snjókomu á sunnudaginn og framan af mánudegi.

Samkvæmt spánni mun snjóa á Vestfjörðum, um allt Norðurland og austur á Austfirði. Þessu vorhreti fylgir allhvöss norðanátt og mun því draga í skafla, og þá er líklegt að hálka myndist á vegum og að færð spillist, sérstaklega á fjallvegum. Jafnframt má búast við því að snjóflóðahætta geti skapast til fjalla.

 

Vetrinum er því ekki alveg lokið, enda er sumardagurinn fyrsti ekki fyrr en á fimmtudaginn. Veðurhorfur á landinu eru annars þessar:

Fremur hæg breytileg átt á landinu og þurrt. Suðvestan 5-10 metrar á sekúndu á morgun og dálítil væta í flestum landshlutum. Hiti víða 3 til 8 stig, en kaldara norðaustan til fram á morgundaginn.

Á sunnudag:

Vaxandi norðan- og norðaustanátt, víða 13-18 metrar síðdegis. Slydda eða snjókoma, en skúrir eða slydduél framan af degi um landið sunnanvert. Talsverð ofankoma frá Tröllaskaga allt austur á norðanverða Austfirði. Hiti frá frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 7 stig á suðausturlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×