Íslenski boltinn

Spá FBL og Vísis: Fylkir hafnar í 11. sæti

Ásmundur Arnarsson er á þriðja ári með Fylki.
Ásmundur Arnarsson er á þriðja ári með Fylki. Vísir/Daníel
Fylkismenn gætu átt erfitt uppdráttar í sumar en þeir hafa misst mjög sterka leikmenn frá síðasta tímabili og ekki náð að fylla almennilega í þau skörð sem mynduðust með brotthvarfi leikmanna á borð við Viðar Kjartansson og Ásgeir Börk Ásgeirsson.

Síðasta sumar var í meira lagi skrautlegt hjá Fylki. Liðið vann ekki leik í fyrri umferðinni en tók á mikinn sprett í þeirri síðari þar sem það vann sjö leiki og gerði eitt jafntefli. Liðið hífði sig upp um miðja deild en lykilmenn í þeirri upprisu eru horfnir á braut.

Ásmundur Arnarsson er við stjórnvölinn hjá liðinu þriðja sumarið í röð en hans bíður erfiðara verkefni en nokkru sinni fyrr, enda ekki bara skörð höggvin í liðið heldur er einnig mikið um meiðslavandræði í herbúðum Fylkis.

Gengi Fjölnis síðustu sex tímabil:

2008 (9. sæti)  

2009 (3. sæti)

2010 (9. sæti)  

2011 (7. sæti)

2012 (7. sæti)

2013 (7. sæti)

Íslandsmeistarar: Aldrei (2. sæti 2000 og 2002)

Bikarmeistarar: 2001 og 2002

Tölur Fylkis í Pepsi-deildinni 2013:

Mörk skoruð: 6. sæti (1,5 í leik)

Mörk á sig: 7. sæti (1,5 í leik)

Stig heimavelli: 9. sæti (10 af 30,3%)

Stig á útivelli: 4. sæti (16 af 48,5%)

Nýju mennirnir:

Gunnar Örn Jónsson (Stjörnunni)

Ragnar Bragi Sveinsson (Kaisersl.)

Ryan Maduro (Bandaríkjunum)

Stefán R. Guðlaugsson (Val)

Viktor Örn Guðmundsson (FH)

Andrew Sousa (Kanada)

Ásgeir Börkur er farinn.Vísir/Valli
EINKUNNASPJALDIÐ:

Vörnin: 1 stjarna

Stór þáttur í velgengni Fylkis í fyrra var miðvarðarparið Kristján Hauksson og Agnar Bragi Magnússon sem small saman í seinni umferðinni. Kristján Hauksson hefur ekkert spilað í vetur vegna vinnu og er mögulega hættur, þótt ekki sé útilokað að hann rífi fram skóna í sumar.

Þá fór Agnar Bragi í aðgerð og er óvíst með þátttöku hans á tímabilinu en Agnar hefur heldur ekkert spilað í vetur. Miðvörðurinn Stefán Ragnar Guðlaugsson er kominn frá Val og bakvörðurinn trausti, Tómas Joð Þorsteinsson, er á sínum stað. Ungir strákar gætu leyst aðrar stöður þegar líður á tímabilið eins og undanfarin ár í Árbænum.

Sóknin: 2 stjörnur

Fylkismenn sárvantar framherja og hafa þeir fengið nokkra slíka á reynslu í vetur. Það munar um að missa Viðar Örn Kjartansson, sem skoraði  13 mörk í fyrra og hélt liðinu á floti lengi vel. Árbæingar urðu fyrir áfalli í lok mars þegar Davíð Einarsson, sem leit vel út síðasta haust og í vetur, sleit krossband en hann var búinn að skora þrjú mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum.

Gunnar Örn Jónsson er kominn frá Stjörnunni og hefur verið að spila frammi en hefur ekki skilað mörgum mörkum. Ásgeir Örn Arnþórsson, sem spilaði bakvörð hjá liðinu í fyrra, hefur verið færður framar og er búinn að skora fjögur mörk í Lengjubikarnum.

Það þurfa margir að hjálpast að við markaskorun í sumar til að bæta upp fyrir brotthvarf Viðars en ef Árbæingar finna ekki alvöru framherja fyrir mót gæti markaskorun orðið mikið vandamál.

Þjálfarinn: 3 stjörnur

Ásmundur Arnarsson hefur sýnt það á sínum þjálfaraferli að hann er klókur og mjög fær þjálfari. Hann lyfti grettistaki í fótboltanum í Grafarvogi þar sem hann kom Fjölni í fyrsta skipti upp í úrvalsdeildina og hélt liðinu þar, auk þess að koma liðinu í bikarúrslit í tvígang. Vera hans í Árbænum hefur þó ekki verið nein flugeldasýning en liðið hefur hafnað bæði árin undir hans stjórn í sjöunda sæti. Hann hefur þó gert mikið úr litlu og sýndi í fyrra að stundum er í lagi fyrir stjórnarmenn að treysta þjálfaranum sínum.

Breiddin: 1 stjarna

Árbæingar koma til leiks með slakara byrjunarlið en í fyrra og breiddin er heldur ekki mikil. Gunnar Örn Jónsson og Viktor Örn Guðmundsson eru leikmenn sem vilja eflaust ólmir sanna sig hjá nýjum liðum og eru góðir fótboltamenn. Þá hefur Andrew Sousa verið að spila á miðjunni, nýr erlendur leikmaður.

Séu allir heilir, sem er vandamál hjá Fylki þessa dagana nú þegar styttist í mót, ættu að vera þekkt nöfn í byrjunarliðinu á borð við Bjarna Þórð Halldórsson, Finn Ólafsson og Kjartan Ágúst Breiðdal. Annars byggist hópurinn meira og minna upp á ungum strákum sem sumir eru með einhverja reynslu í deildinni en þó ekki mikla. Fylkismenn þurfa að vera heilir í sumar, annars gæti farið illa.

Liðsstyrkurinn: 2 stjörnur

Sem fyrr segir er Gunnar Örn Jónsson kominn frá Stjörnunni og Viktor Örn Guðmundsson frá FH, leikmenn sem fengu lítið að spreyta sig í fyrra. Viktor Örn er með frábæran vinstri fót sem getur skapað mikinn usla í föstum leikatriðum og þá getur hann skorað beint úr aukaspyrnum. Gunnar Örn er fljótur en hefur verið mikið upp og niður í sinni spilamennsku.

Stefán Ragnar Guðlaugsson þarf að sýna þau gæði sem hann sýndi hjá Selfossi, þar sem hann var fyrirliði, en hann átti erfitt uppdráttar á Hlíðarenda. Fylkismenn gátu svo tekið gleði sína á ný þegar Andrés Már Jóhannesson kom aftur heim frá Noregi.

Hefðin: 3 stjörnur

Það átta kannski ekki allir sig á því að Fylkir er það lið sem hefur verið næstlengst í efstu deild á eftir KR. Það vann 1. deildina 1999, hefur verið í úrvalsdeildinni samfleytt frá árinu 2000, unnið tvo bikarmeistaratitla á því tímabili og komist nokkrum sinnum í Evrópukeppni. Það hefur skapast mikil hefð fyrir úrvalsdeildarfótbolta í Árbænum, enda hefur liðið ávallt haldið sæti sínu þegar það hefur verið að væflast í fallbaráttunni.

Lykilmaðurinn: Andrés Már Jóhannesson

Fólk brosti hringinn í Árbænum á dögunum þegar Fylkir tilkynnti að Andrés Már Jóhannesson væri kominn heim frá Haugasundi í Noregi.

Þar er á ferð frábær leikmaður sem var mjög góður síðasta sumar eftir að hann komst í almennilegt stand. Því miður fyrir Fylkismenn kemur hann heim meiddur og er óvíst hversu mikið hann getur beitt sér í byrjun móts.

Fylgstu með þessum: Ragnar Bragi Sveinsson

Ragnar Bragi er yngsti leikmaðurinn sem spilað hefur leik fyrir Fylki í efstu deild en hann var aðeins 15 ára og 269 daga gamall þegar hann kom inn á í deildarleik gegn Breiðabliki í september árið 2010.

Hann hefur leikið með unglingaliði Kaiserslauten undanfarin ár og á að baki tólf leiki fyrir U17 og U19 ára landslið Íslands. Virkilega efnilegur leikmaður sem hefur þó því miður glímt við meiðsli að undanförnu.

Spá Vísis og Fréttablaðsins fyrir Pepsi-deild karla sumarið 2014:

1. sæti ???

2. sæti ???

3. sæti ???

4. sæti ???

5. sæti ???

6. sæti ???

7. sæti ???

8. sæti ???

8. sæti ???

10. sæti Á morgun

11. sæti Fylkir

12. sæti Fjölnir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×