Enski boltinn

Southgate má taka Wilshere, Sterling, Jones, Uxann og alla hina á EM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsenal-mennirnir Jack Wilshere og Alex Oxlade-Chamberlain (The Ox) gætu farið til Tékklands.
Arsenal-mennirnir Jack Wilshere og Alex Oxlade-Chamberlain (The Ox) gætu farið til Tékklands. vísir/getty
Gareth Southgate, þjálfari U21 árs landsliðs Englands, mætir mögulega með eitt reyndasta og sterkasta U21 árs lið síðari ára á Evrópumótið í Tékklandi næsta sumar.

Roy Hodgson, þjálfari A-landsliðs Englands, er í svo góðri stöðu eftir fjóra sigra í röð í undankeppni EM 2016 að hann ætlar að leyfa Southgate að velja sér menn til að taka með til Tékklands.

England spilar vináttuleik við Írland 7. júní og leik í undankeppninni gegn Slóveníu ytra nokkrum dögum síðar. Southgate og félagar hefja leik í Tékklandi 17. júní, en undirbúningurinn hefst fyrr en það.

Gareth Southgate.vísir/getty
„Þetta er mjög einfalt: Gareth Southgate velur sinn hóp og svo vel ég minn. Ég tek bara það sem verður eftir. Þetta verður ekki einfaldara. Ég er búinn að segja honum að hann megi velja hvaða leikmann sem er sem er gjaldgengur í U21 árs liðið og ég tek rest,“ segir Roy Hodgson.

Byrjunarlið enska U21 árs landsliðsins gæti verið ógnarsterkt og stútfullt af strákum með mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni og B-deildinni.

Leikmenn á borð við Phil Jones, Luke Shaw, Jack Wilshere, Alex Oxlade-Chamberlain, Ross Barkley, Raheem Sterling og markahæsti Englendingurinn í úrvalsdeildinni, Saido Berahino, eru allir gjaldgengir í U21 árs liðið í sumar.

Svo eru fleiri minni spámenn sem hafa þó spilað reglulega í nokkur ár eins og Derby-mennirnir Will Hughes og markvörðurinn Jack Butland að ógleymdum Southamton-manninum James Ward-Prowse.

Þó Hodgson sé búinn að gefa Southgate grænt ljós á að velja hvern þann sem hann vill á landsliðsþjálfarinn eftir að taka slaginn við forráðamenn liðanna sem leikmennirnir spila fyrir, en óvíst er hvort allir fái leyfi frá sínu félagsliði til að taka þátt í mótinu.

Hér að neðan má sjá hvernig Daily Star stillir upp mögulegu byrjunarlið Englands á EM U21 árs í Tékkland í sumar.

mynd/daily star



Fleiri fréttir

Sjá meira


×