Fótbolti

Southampton sparkað út úr Evrópukeppninni á heimavelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liðsmenn Hapoel Be'er Sheva fagna marki sínu.
Liðsmenn Hapoel Be'er Sheva fagna marki sínu. Vísir/Getty
Það verða ekki fleiri Evrópukvöld á St Mary´s leikvanginum á þessu tímabili eftir að Southampton náði ekki að vinna lokaleik sínum í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í kvöld.

Ísraelska liðið Hapoel Be'er Sheva komst áfram eftir 1-1 jafnyefli við Southampton í Englandi í kvöld en liðin höfðu gert markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Ísrael.

Liðsmenn Hapoel Beer Sheva fögnuðu gríðarlega í leikslok enda að ná sögulegum árangri fyrir félagið sem er á sínu fyrsta tímabili í Evrópudeildinni.

Maor Buzaglo skoraði mark Hapoel þrettán mínútum fyrir leikslok með laglegu skoti eftir að Southampton-liðið missti boltann við eigin vítateig.

Marklaust jafntefli hefði dugað Southampton en eftir þetta mark þurfti enska liðið að skora tvö mörk.

Virgil van Dijk jafnaði metin á fyrstu mínútu í uppbótartíma en markið kom of seint fyrir Southampton.

Yoshida fékk frábært færi í lokin en skalli hans fór rétt framhjá markinu.

Liðsmenn Southampton náðu bara að skora þetta eitt mark og leikmenn Hapoel Beer Sheva fögnuðu jafnteflinu og sæti í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Hapoel Beer Sheva varð í öðru sæti riðilsins en Sparta Prag vann riðilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×