Enski boltinn

Southampton hafnaði tilboði Liverpool í Lovren

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Dejan Lovren, leikmaður Southampton.
Dejan Lovren, leikmaður Southampton. Vísir/Getty
Southampton neitaði í dag tilboði frá Liverpool í króatíska miðvörðinn Dejan Lovren sem hljómaði upp á 20 milljónir punda. Lovren hefur þegar lagt inn félagsskiptabeiðni en Southampton vill halda varnarmanninum sterka.

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Liverpool, er á höttunum eftir varnarmanni fyrir baráttuna sem er framundan. Liverpool barðist til loka við Manchester City um Englandsmeistaratitilinn en slakur varnarleikur liðsins kostaði liðið á endanum.

Lovren sem gekk til liðs við Southampton frá Lyon síðasta sumar telur að samkomulag hafi verið milli leikmanns og félagsins að félagið myndi samþykkja tilboð í hann upp á 20 milljónir punda. Lovren hefur nú þegar lagt inn félagsskiptabeiðni en hann yrði þriðji leikmaðurinn sem gengur til liðs við Liverpool frá Southampton í sumar á eftir Rickie Lambert og Adam Lallana.

Talið er að Lovren muni neita að taka þátt í undirbúningstímabili Southampton til þess að reyna að neyða Southampton til að samþykkja tilboð Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×