Erlent

Sósíalistar munu ekki styðja ríkisstjórn sem leidd verður af Þjóðarflokknum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mariano Rajoy og Pedro Sanchez á fundinum í dag.
Mariano Rajoy og Pedro Sanchez á fundinum í dag. vísir/epa
Leiðtogi spænska Sósíalistaflokksins, Pedro Sanchez, og forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, sem er formaður Þjóðarflokksins, hittust á stuttum fundi í dag í kjölfar þingkosninganna sem fóru fram í landinu á sunnudag.

 

Sú sérstaka staða er nú uppi í spænskum stjórnmálum að enginn flokkur er með hreinan meirihluta á þingi en það hefur ekki gerst frá því lýðræði var komið á í landinu árið 1975. Því þarf nú að mynda samsteypustjórn eða minnihlutastjórn sem gæti reynst þrautin þyngri en síðustu 40 ár hafa Sósíalistaflokkurinn og Þjóðarflokkurinn skipst á að fara með völdin í landinu.

Að loknum fundinum með Rajoy sagði Sanchez að hann ætlaði sér ekki að styðja ríkisstjórn sem sá fyrrnefndi myndi leiða.

„Að segja nei við Rajoy er að segja já við breytingum,“ sagði Sanchez við fréttamenn í dag og bætti við að hann vildi ekki sjá nýjar kosningar.

Þjóðarflokkurinn hlaut flest atkvæði á sunnudag og Sósíalistaflokkurinn næstflest atkvæði. Nýi vinstriflokkurinn Podemos kom svo inn með krafti í sínum fyrstu þingkosningum og er nú þriðji stærsti flokkurinn á spænska þinginu. Fjórði stærsti flokkurinn er svo hægriflokkurinn Ciudadanos.

Leiðtogi þess flokks hefur kallað eftir þriggja flokka stjórn sósíalista, Þjóðarflokksins og Ciudadanos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×