Fótbolti

Sonurinn er efnilegri en ég var

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hagi í leik með landsliðinu á HM 1994.
Hagi í leik með landsliðinu á HM 1994. vísir/getty
Gheorghe Hagi var á sínum tíma einn besti knattspyrnumaður heims og sonur hans stefnir á að toppa kallinn.

Hagi lék meðal annars með Real Madrid og Barcelona á sínum tíma og var prímusmótorinn í frábæru landsliði Rúmeníu undir lok síðustu aldar.

Hagi á 16 ára gamlan son, Ianis, sem er þegar farinn að vekja mikla eftirtekt. Hagi setur mikla pressu á soninn sem hann segir vera efnilegri en hann var á sama aldri.

„Hann hefur hæfileikana og andlega styrkinn. Hann spilar fótbolta af tilfinningu, er gjafmildur og vinnur fyrir liðið. Hann getur gefið stoðsendingar, er fljótur að taka ákvarðanir og er jafn góður með báðum fótum. Ég hafði bara vinstri fótinn," sagði Hagi stoltur af syninum.

Hagi yngri er þegar orðinn fyrirliði liðs í efstu deild í Rúmeníu en var keyptur af ítalska liðinu Fiorentina í sumar. Félagið lánaði hann í vetur en ætlar að taka hann inn í aðalhóp félagsins næsta sumar.

„Það er mikill fótbolti í honum og hann er góður að skjóta. Það er mikil vinna fram undan en hann er á réttri leið. Hann er betri en ég var 16 ára. Hann mun verða fyrirliði rúmenska landsliðsins einn daginn."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×