Fótbolti

Sonur Pele dæmdur í tólf ára fangelsi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Pele og Edinho, vinstra megin við goðsögnina, aðstoðuðu borgarstjórann við uppsetningu á safni til heiðurs Pele.
Pele og Edinho, vinstra megin við goðsögnina, aðstoðuðu borgarstjórann við uppsetningu á safni til heiðurs Pele. Vísir/getty
Fyrrum knattspyrnumaðurinn Edinho, sem er sennilega hvað þekktastur fyrir að vera sonur brasilísku goðsagnarinnar Pele, var í gær dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir peningaþvott og fíkniefnasölu í heimalandinu.

Það voru miklar væntingar gerðar til Edinho enda er faðir hans talinn einn besti knattspyrnumaður allra tíma.

Ólíkt pabba sínum var staða Edinho í markinu og lék hann meðal annars lengi vel með Santos, félaginu sem pabbi hans lék með í átján ár.

Eftir að hafa lagt skóna á hilluna hafði Edinho starfað við þjálfun en hann var um tíma aðstoðarþjálfari Santos.

Nú er hann hinsvegar á leiðinni í fangelsi en um er að ræða tólf ára gamalt mál sem hefur dregist á langinn. Var hann dæmdur í 33 ára fangelsi árið 2014 en hann áfrýjaði dómnum og var fangelsisvistin stytt.

Hefur hann áfrýjað nýjasta dómnum en honum verður gert að sitja inni á meðan málið verður tekið fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×