Innlent

Sömu mistök og gerð voru fyrir hrunið

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gylfi Arnbjörnsson.
Gylfi Arnbjörnsson.
Hagdeild ASÍ býst við að vöxtur landsframleiðslu verði 3,1-3,5 prósent fram til ársins 2016. Vöxtur einkaneyslu verði á bilinu 3,4-4,3 prósent og hann muni vaxa í takt við batnandi stöðu heimilanna.

Gert er ráð fyrir að kaupmáttur launa vaxi, skuldir lækki og væntingar almennings verði góðar. Þá er búist við því að fjárfestingar muni taka við sér og aukast á bilinu 14,8-17,2 prósent. Hlutfall fjárfestinga af landsframleiðslu verði komið yfir tuttugu prósent á árinu 2016. Þá muni draga úr atvinnuleysi.

Hagdeildin hefur þó áhyggjur af aukinni verðbólgu sem Seðlabankinn muni svara með hærri vöxtum. Þá hefur hagdeild ASÍ áhyggjur af því að hagvöxtur verði nú borinn uppi af vexti þjóðarútgjalda í stað útflutnings.

Viðskiptajöfnuður við útlönd versni því á komandi árum og ekki sé sjáanlegt að ríkisfjármálin muni stuðla að auknum stöðugleika.

Þvert á móti virðist stjórnvöld ætla að gera sömu hagstjórnarmistökin og gerð voru á árunum fyrir hrun þegar ríkisfjármálin unnu beinlínis gegn viðleitni Seðlabankans til að koma á stöðugleika.

Þarna segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, að vísað sé til bæði skuldaleiðréttingarinnar og skattastefnu ríkisstjórnarinnar.

„Hvað sem um hana má segja að öðru leyti, þá lá fyrir að með henni er verið að færa fjármuni inn í hagkerfið. Seðlabankinn mat það þannig og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að þetta sé verðbólguhvetjandi. Það sama á við um skattastefnu ríkisstjórnarinnar,“ segir Gylfi.

Með minnkandi viðskiptajöfnuði segir Gylfi að unnið sé gegn stefnu um langtímastöðugleika.

„Það var nú það sem ríkisstjórnin lýsti yfir í nóvember í fyrra að hún myndi haga öllum sínum ákvörðunum út frá því meginsjónarmiði að styðja við stöðugleikann,“ segir forseti ASÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×