Viðskipti innlent

Söluferli Kolufells lokið

Birgir Olgeirsson skrifar
Arion banki
Arion banki
Apartnor ehf. undir forystu Íslenskra fasteigna ehf., hefur fest kaup á 80% hlutafjár í Kolufelli ehf., sem er lóðarhafi og eigandi byggingaréttar að Austurbakka 2, Reykjavík. Apartnor ehf. er félag á vegum Eggerts Dagbjartssonar og Hreggviðs Jónssonar. Seljendur eru Arion banki og félög í eigu Mannvits og T.ark Arkitekta. Með viðskiptunum er söluferli Kolufells, sem auglýst var opinberlega í árslok 2015, til lykta leitt.

Kolufell hefur þegar hafið framkvæmdir á lóð félagsins á svokölluðum Hörpureit í miðborg Reykjavíkur. Á lóðinni, sem er staðsett milli Geirsgötu og fyrirhugaðrar hótelbyggingar við hlið Hörpu, mun rísa vandað íbúðar- og verslunarhúsnæði og nemur heimilað byggingarmagn á lóðinni alls um 15.600 fermetrum. Áætlað er að framkvæmdum ljúki innan þriggja ára.

Íslenskar fasteignir ehf., sem er ráðgjafa- og fjárfestingafélag á sviði fasteignaþróunar, mun leiða verkefnið fyrir hönd Apartnor ehf, í samstarfi við T.ark Arkitekta og Mannvit. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka hafði umsjón með söluferli Kolufells.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×