Enski boltinn

Solskjær: Of snemmt að afskrifa United úr titilbaráttunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Louis van Gaal er að gera fína hluti með United þessa dagana.
Louis van Gaal er að gera fína hluti með United þessa dagana. vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær, norska goðsögnin hjá Manchester United, segir Louis van Gaal, knattspyrnustjóra félagsins, hafa þann sterka persónuleika sem United skorti.

Hollendingurinn tók við í sumar eftir að David Moyes var látinn fara, en United er komið á skrið og búið að vinna sex leiki í röð í ensku úrvalsdeildinni.

„Honum fylgja ferskir vindar. Hann hefur þann sterka karakter sem stuðningsmennirnir og leikmennirnir vildu sjá,“ segir Solskjær við Manchester Evening News.

„Þið sjáið að hann talar um að vinna úrvalsdeildina. Þannig eiga menn að hugsa hjá Manchester United. Við eigum ekki að tala um að enda í þriðja eða fjórða sæti heldur vinna deildina.“

Manchester United er átta stigum á eftir toppliði Chelsea, en Solskjær segir það of snemmt að afskrifa United úr titilbaráttunni.

„Ég hef verið hérna í of mörg ár til að gera það. Ef liðið er í baráttunni í mars og apríl er aldrei að vita hvað gerist. Það er þá sem kemur í ljós hvert er besta liðið,“ segir Ole Gunnar Solskjær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×