Lífið

Sólrisuhátíðinni fagnað

Vilborg Davíðsdóttir hefur ýmislegt um sólrisuhátíðina að segja, og mun gera það í húsakynnum Norræna félagsins í Reykjavík í kvöld.
Vilborg Davíðsdóttir hefur ýmislegt um sólrisuhátíðina að segja, og mun gera það í húsakynnum Norræna félagsins í Reykjavík í kvöld. Fréttablaðið/Vilhelm
„Ég er að fara að tala um jólasiði til forna, þá sem tíðkuðust mögulega í heiðni og sömuleiðis í Skotlandi meðal Kelta,“ segir Vilborg Davíðsdóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur, en hún er ein þeirra sem munu halda erindi á Sólrisuhátíð Norræna félagins í Reykjavík í kvöld klukkan 20 í húsakynnum Norræna félagsins að Óðinsgötu 7. Einnig mun Þorvaldur Friðriksson, fréttamaður og fornleifafræðingur, tala og Ana Stan­icevic, Norðurlandafræðingur og nýr stjórnarmaður í Norræna félaginu, vera með skosk/íslenskan ljóðagjörning til að fagna sólrisunni.

„Sólrisuhátíðin eða sólhvörfin eru á þessum forna tíma áramótahátíð. Til að mynda segir Snorri Sturluson að á þeim tíma miðvetrar, hafi menn blótað til gróðrar, frjósemisblót – við vitum auðvitað afskaplega lítið um þetta nema það sem er hægt að leggja saman í brotakenndum heimildum um blótin sjálf. Jólnir er eitt af 170 nöfnum Óðins, kannski hefur hann verið blótaður um jólin. Ég er ekki að ýkja þegar ég segi 170 nöfn – þetta er þannig, hann hefur ákaflega mörg nöfn.“ Vilborg segir þessa miklu hátíð, sem enn eimir eftir af á Íslandi þó að hin kristnu jól hafi að mestu tekið yfir, lifa góðu lífi í Skotlandi.

„Í Skotlandi er alls kyns þjóðtrú sem tengist þessum tíma. Í Skotlandi heita áramótin reyndar Hogmanay og þetta er miklu meiri hátíð, og hefur alltaf verið, en jólin. Þar tengist alls konar þjóðtrú því að það þarf að fara afar varlega þegar farið er inn í nýja árið, það þarf að gá vel að sér og það þynnist hulan á milli heima og hægt er að sjá fram í tímann.

Einn skoskur siður, sem er svolítið kostulegur, er að það er sérstök trú fest við það hvaða gestur kemur fyrstur yfir þröskuldinn hjá þér á nýja árinu. Hann er talinn fyrirboði um hvernig árið verður hjá þér. Þá er best að fá dökkhærðan, hávaxinn karlmann. Þetta er kallað The First-foot. Ef það vill svo ógæfulega til að rauðhærð kona kemur fyrst yfir þröskuldinn á nýársnótt þá er ekki von á góðu. Svo er auðvitað skálað í viskíi og gesturinn verður að koma með viskíflösku með sér. Það var á öldum áður afskaplega vinsælt að tryggja sér það að það kæmi örugglega dökkhærður karlmaður í heimsókn.“

Sumt af þessu hljómar dálítið eins og þrettándinn hér heima ekki satt?

„Jú, það er nákvæmlega sama trúin. Öll þessi trú um að kýrnar geti talað á nýársnótt eða á þrettándanum og fleira er einmitt angi af þessu sama – yfirnáttúrleg öfl taka völdin og við verðum að fara varlega.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×