Fótbolti

Solo var aðeins sex sekúndum frá HM-meti Angerer

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hope Solo með gullhanskann eftir leikinn í gær.
Hope Solo með gullhanskann eftir leikinn í gær. vísir/getty
Þrátt fyrir að halda hreinu í rúma fimm leiki eða 539 mínútur á Hope Solo, markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta, ekki metið á HM yfir að halda hvað lengst hreinu.

Hún var alveg grátlega nálægt því í úrslitaleiknum í gærkvöldi, en Solo fékk á sig mark á 27. mínútu þegar Yuki Ogimi klóraði í bakkann fyrir Japan, 4-1.

Þessi umdeildi markvörður var aðeins sex sekúndum frá því að bæta met Nadine Angerer, markvarðar þýska landsliðsins, sem hélt hreinu í 540 mínútur á HM 2007 í Kína þar sem Þjóðverjar urðu heimsmeistarar í annað sinn.

Þýskaland fékk ekki á sig mark á HM 2007 á leið sinni að öðrum titlinum í röð, en búið er að fjölga liðum á HM núna og leikjum þar með um einn.

Bandaríkin fengu á sig mark í fyrri hálfleik gegn Ástralíu í fyrstu umferð riðlakeppninnar, en liðið, og Solo, hélt svo hreinu alveg fram að marki Japan í úrslitaleiknum.

Solo á ekki allan heiðurinn skilinn því varnarleikur bandaríska liðsins var magnaður með miðverðina, Becky Sauerbrunn og Julie Johnston, í svakalegu formi.

Vissulega svekkjandi fyrir Solo, en hún getur þó huggað sig við heimsmeistaratitilinn, viðurkenninguna besti markvörður HM, sem hún fékk eftir mótið, og þá staðreynd að hún hélt hreinu í undanúrslitaleiknum gegn Þýskalandi sem Bandaríkin unnu, 2-0. Þar stóð Nadine Angerer í marki Þýskalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×