Erlent

Sólarorkuflugvél flaug yfir Kyrrahafið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sólarorkuflugvélin Solar Impulse lenti í nótt í Silicon-dal í Kaliforníu-ríki Bandaríkjanna eftir þriggja daga flug frá Havaí. Flugvélin er eingöngu knúin sólarorku.

Mikið hvassviðri varð til þess að flugmaður vélarinnar þurfti að bíða átekta áður en hann get lent en við lendingu lét hann hafa eftirfarandi eftir sér:

„Kyrrahafið er búið.“

Solar Impulse hefur undanfarna mánuði flogið um heiminn en ferðalagið hófst í mars á síðasta ári í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Ferðin frá Havaí yfir til Kaliforníu var talin vera sú hættulegasta á ferðalaginu enda afar lítið um staði á leiðinni þar sem hægt var að nauðlenda kæmi eitthvað upp á.

Alls eru 17 þúsund sólarsellur á flugvélinni sem knýja vélar flugvélarinnar en hlaða einnig rafhlöður svo að flugvélin geti flogið á nóttinni. Um borð eru tveir flugmenn sem skiptast á að fljúga vélinni. Annar þeirra segir að í framtíðinni muni allar flugvélar verða knúnar áfram með sólarorku.

Flugmennirnir hafa þó lent í nokkrum vandræðum á leiðinni en átta mánuða bið var á ferð flugvélarinnar eftir að bilun kom uppp á leiðinni frá Japan til Havaí. Næsta stopp er New York áður en haldið verður yfir Atlantshafið.


Tengdar fréttir

Fer umhverfis jörðina á sólarorku

Flugvél sem gengur einungis fyrir sólarorku tók á loft frá Abu Dhabi í morgun en áætlað er að vélin fljúgi umhverfis heiminn á næstu fimm mánuðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×