Körfubolti

Söknuðu Jakobs í naumu tapi í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu.
Jakob Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Andri Marinó
Jakob Sigurðarson gat ekki spilað með liði Borås Basket í kvöld og munaði mikið um íslenska bakvörðinn.

Borås Basket tapaði þá með þremur stigum á heimavelli á móti Södertälje Kings, 67-70, eftir æsispennandi leik.

Jakob glímir við meiðsli á fæti en þetta var fyrsti leikurinn sem hann missir af á þessu tímabili.

Liðsmenn Borås Basket stóðu sig vel án hans en það vantaði einhvern til að klára leikinn í lokin. Jakob hefur oft farið fyrir sínu liði í lok leikjanna og var því sárt saknað.

Borås Basket var þremur stigum yfir í hálfleik, 40-37, en leikurinn var jafn nær allan tímann. Gott dæmi um það er að liðin skiptu 24 sinnum um að hafa forystu í leiknum.

Borås Basket komst samt ellefu stigum yfir, 37-26, eftir að hafa skorað níu stig í röð um miðjan annan leikhluta.

Borås Basket er í 6. sæti sænsku deildarinnar með 14 sigra og 13 töp. Liðið hefur hinsvegar aðeins unnið 4 af síðustu 10 leikjum sínum og er að missa af möguleikanum á því að vera með heimavallarrétt í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×