Handbolti

Sókn Löwen sigldi í strand í seinni hálfleik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark líkt og Alexander Petersson.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði eitt mark líkt og Alexander Petersson. vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen skoraði aðeins sex mörk í seinni hálfleik þegar liðið tapaði 25-21 fyrir Zagreb í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í kvöld.

Þessi lið mættust í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili. Þar hafði Zagreb betur, samanlagt 54-53.

Löwen var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik í leiknum í Zagreb í kvöld og leiddi með fimm mörkum að honum loknum, 10-15.

Í seinni hálfleik hrökk sóknarleikur Ljónanna í baklás og liðinu var á köflum fyrirmunað að skora. Löwen skoraði aðeins sex mörk í seinni hálfleiknum á móti 15 hjá Zagreb sem vann leikinn með fjórum mörkum, 25-21.

Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu sitt markið hvor fyrir Löwen sem er í 4. sæti riðilsins með 11 stig. Þetta var síðasti leikur liðsins í Meistaradeildinni á þessu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×