Fótbolti

Sögulegt draumamark hjá Messi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Lionel Messi bætti markamet argentínska landsliðsins með draumamarki í nótt er Argentína valtaði yfir Bandaríkin í undanúrslitum Copa America.

Argentínumenn voru með mikla yfirburði í leiknum og unnu stórsigur, 4-0. Veislan byrjaði strax á 3. mínútu er Ezequiel Lavezzi stangaði boltann í netið hjá stressuðum Bandaríkjamönnum eftir sendingu frá Lionel Messi.

Á 32. mínútu var komið að sögulegum viðburði. Lionel Messi skoraði þá algjörlega stórkostlegt mark beint úr aukaspyrnu. Landsliðsmark númer 55 hjá honum og Messi því orðinn markahæsti landsliðsmaður Argentínu frá upphafi. Hann var jafn Gabriel Omar Batistuta fyrir leikinn en á metið nú einn.

Strax á fimmtu mínútu síðari hálfleiks gerðu Argentínumenn út um leikinn er Gonzalo Higuain skoraði og hann setti síðasta naglann í kistu Bandaríkjamanna með marki eftir undirbúning Messi fjórum mínútum fyrir leikslok.

Messi því með draumamark og tvær stoðsendingar í leiknum. Argentína spilar við Kólumbíu eða Síle í úrslitaleiknum en þau mætast á miðnætti í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Mörkin úr leiknum má sjá hér að ofan.

Þessi ágæti aðdáandi Messi hljóp inn á völlinn er síðari hálfleikur var að hefjast í nótt. Eins og sjá má ekki með neitt illt í huga. Hann féll fyrir fætur meistarans og faðmaði hann svo í kjölfarið.vísir/afp



Fleiri fréttir

Sjá meira


×