Erlent

Sögulegar sættir Bandaríkjanna og Kúbu

Heimir Már Pétursson skrifar
Sögulegar sættir hafa tekist með stjórnvöldum í Bandaríkjunum og Kúbu með lausn Bandaríkjamanns úr fangelsi á Kúbu og þriggja Kúbverja úr fangelsi í Flórída. Bandaríkjamenn munu opna sendiráð á Kúbu á næstu mánuðum.

Diplómatískur fjandskapur hefur ríkt milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kúbu í um hálfa öld og bandaríska leyniþjónustan gerði ítrekaðar tilraunir á seinni hluta síðustu aldar til að ráða Fidel Castro leiðtoga byltingarinnar á Kúbu af dögum.

Í dag slepptu Kúbverjar Alan Gross 65 ára Bandaríkjamanni úr haldi eftir fimm ára fangelsisvist og Bandaríkjamenn slepptu þremur Kúbverjum úr haldi en allir voru mennirnir sakaðir um njósnir.

Barack Obama forseti Bandaríkjanna og Raul Castro forseti Kúbu tilkynntu svo á blaðamannafundum sem haldnir voru samtímis klukkan fimm í dag, að viðræður yrðu teknar upp um stjórnmálasamband ríkjanna. En það hefur ekki verið til staðar í um fimmtíu ár og viðskiptabann Bandaríkjastjórnar við Kúbu hefur verið í gildi frá árinu 1962.

Einng greindu forsetarnir frá því að bandarískt sendiráð yrði opnað á Kúbu innan fárra mánaða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×