Erlent

Söguleg heimsókn til Hiroshima

Birta Björnsdóttir skrifar
Í sumar verður 71 ár liðið frá því að Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á japönsku borgina Hiroshima með þeim afleiðingum að 140 þúsund manns létu lífið og borgin var jöfnuð við jörðu. Tveimur dögum síðað vörpuðu Bandaríkjamenn annarri kjarorkusprengju á Nagasaki með sömu gjöreyðileggingu og 70 þúsund manns týndu lífi.

Þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna heimsækir borgirnar síðan árásirnar voru gerðar. Obama sagði að heimsóknin sýni glöggt að jafnvel fornir fjendur geti orðið hinir sterkustu bandamenn. Í ávarpi sínu sagði hann mikilvægt að árásirnar og afleiðingar þeirra gleymdust aldrei. Undir þau orð tók forsætisráðherra Japans.

Obama sagði hugrekkið jafnframt mikilvægt í þeirri framtíðarsýn að kjarnorkuvopn heyri sögunni til. Forsetinn baðst þó ekki afsökunar á árásum Bandaríkjahers.

Eftir að hafa lagt blómsveig á minnisvarða um fórnarlömb kjarnorkuárásanna og heimsótt friðarsafnið í Hiroshima hitti Obama nokkra eftirlifendur árásarinnar.

Samkvæmt skoðanakönnunum, sem framkvæmd var í Japan fyrir komu forsetans, fagnar meirihluti þjóðarinnar heimsókn Obama og settu fáir fyrir sig skort á afsökunarbeiðni til þjóðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×