Innlent

Söfnuðu 2,4 milljónum í góðgerðarstörf: „Klárlega skemmtilegasta skólavikan“

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Strákarnir segja hugarfarsbreytingu hafa orðið í kjölfar verkefnisins.
Strákarnir segja hugarfarsbreytingu hafa orðið í kjölfar verkefnisins. vísir/vilhelm

Nemendur í Hagaskóla söfnuðu rúmlega 2,4 milljónum króna á árlegum góðgerðardegi sem fram fór fyrr í mánuðinum. Þetta er í sjöunda sinn sem góðgerðardagurinn Gott mál er haldinn í skólanum, en markmið dagsins er að vekja nemendur til umhugsunar um hvað felst í sjálfboðaliða- og hjálparstarfi.

Málefnin völdu nemendurnir sjálfir og að þessu sinni ákváðu þeir að styrkja sýrlenska flóttamenn sem koma til Íslands, og samtökin Útmeða, stuðningshóp sem fyrirbyggir sjálfsvíg ungmenna.

Tómas, Benedikt og Magnús, eru afar ánægðir með árangurinn.vísir/vilhelm

Góðgerðarvikan að árlegri hverfishátíð

„Þetta hefur verið árlegur viðburður í Hagaskóla í sjö ár. Bekkirnir vinna saman til að safna peningum fyrir góðgerðarsamtök, allir finna eitthvað til að gera og hafa peningum. Þetta er virkilega gott til að ná skólanum betur saman,“ segir Tómas Viðar Árnason, einn nemendafulltrúa í Hagaskóla. Hann er nú á sínu síðasta ári í Hagaskóla og segist eiga eftir að sakna þess að fá að taka þátt í góðgerðarvikunni.

„Þessi vika er klárlega skemmtilegasta skólavikan. Við höfum verið að toppa okkur hvert ár og ég býst ekki við öðru en að skólinn muni toppa sig að ári liðnu. Þetta er orðið vel þekkt í Vesturbænum – eiginlega bara orðið að hverfishátíð,“ segir hann.

Rauði krossinn og Útmeða urðu fyrir valinu í ár.vísir/vilhelm

Samnemandi hans og annar nemendafulltrúi, Magnús Magnússon, tekur í sama streng, og segir söfnunina hafa farið fram úr björtustu vonum. „Við áttum reyndar alveg von á að toppa okkur í ár, en aldrei von á að upphæðin yrði svona há,“ segir Magnús.

Hugarfarsbreyting í kjölfar verkefnisins

Benedikt Jökull Helgason, sem jafnframt er nemendafulltrúi í skólanum, segir þetta frábæra leið til að vekja krakka til umhugsunar. Hugarfar þeirra hafi vissulega breyst í kjölfar góðgerðarstarfsins.

„Þetta er voða gaman. Allir vinna saman og skemmta sér vel og ég held þetta veki mikla umhugsun í skólanum, þannig að fólk átti sig betur á um hvað þetta snýst,“ segir Benedikt.

Þrátt fyrir að skólaganga þeirra í Hagaskóla sé senn á enda, eru þeir allir sammála um að þeir muni halda áfram að styrkja góð málefni. Mikilvægt sé að fólk taki höndum saman og sýni samstöðu.

Um fimm hundruð nemendur koma að góðgerðarvikunni, sem hefur verið árleg frá árinu 2008. Nemendur skólans koma saman og selja meðal annars kökur og kandífloss, og standa fyrir ýmsum viðburðum á borð við happadrætti. Þá er orðin hefð að útbúa heljarinnar draugahús í kjallara skólans sem nýtur jafnan mikilla vinsælda.

Í fyrra söfnuðust 2,2 milljónir sem runnu til Krabbameinsdeildar Landspítalans og til barna á Gazasvæðinu, en venjan er að styrkja eitt innlent málefni og eitt erlent.

Yfir fimm hundruð nemendur stóðu að söfnuninni.vísir/vilhelm
Stöð 2 leit við á góðgerðardeginum 5.nóvember, líkt og sjá má í myndskeiðinu hér fyrir neðan.

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×