Innlent

Snýr heim til Íslands eftir 36 ára fjarveru

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Næsti Landlæknir Birgir Jakobsson hefur búið í Svíþjóð í 36 ár.
Næsti Landlæknir Birgir Jakobsson hefur búið í Svíþjóð í 36 ár. vísir/stefán
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skipaði í gær Birgi Jakobsson í embætti landlæknis til fimm ára, frá áramótum.

Birgir var sjö ár sem sjúkrahússtjóri á Karólínska sjúkrahúsinu í Svíþjóð og var læknir þar í tuttugu ár. Hann hefur búið í Svíþjóð í næstum fjóra áratugi og er spenntur að koma heim. „Mér finnst mjög spennandi að koma eftir 36 ára veru erlendis. Ég hef fylgst mjög vel með málum hér heima og hef haldið kunningsskap við alla mína gömlu vini,“ segir Birgir. Það verði spennandi að takast á við þau verkefni sem liggja fyrir hér.

„Íslenskt heilbrigðiskerfi stendur sig mjög vel. Það eru vafalaust tímabundnir erfiðleikar núna. En íslenskt heilbrigðiskerfi hefur alltaf verið mjög gott miðað við önnur heilbrigðiskerfi,“ segir Birgir.

Það standi sig jafnvel í samanburði við það sænska. „Það er ekki mjög ósvipað. Maður hugsar svipað í þessum tveimur löndum, merkilegt nokk. Það er gífurlega mikil kunnátta hér, fjölhæft starfsfólk og Íslendingar hafa notið góðs af því að geta sent sitt fólk til annarra landa,“ segir Birgir. Það séu gífurlegir möguleikar á að hafa toppþjónustu hér.

Kristján Þór JúlíussonKristján Þór Júlíusson.
Geir Gunnlaugsson hefur gegnt embætti landlæknis í fimm ár og sóttist eftir skipun í embættið að nýju. Nefnd sem mat hæfi umsækjenda komst að þeirri niðurstöðu að af fimm umsækjendum væru Birgir og Geir hæfastir.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ákvað síðan að skipa Birgi í embættið. „Þetta var niðurstaða mín eftir viðtöl við umsækjendur. Birgir er yfirburðamaður og hefur gríðarmikla og farsæla stjórnunarreynslu í heilbrigðiskerfinu,“ segir Kristján.

Kristján segir að það muni koma í ljós hvaða breytingar verði á embættinu. „Við ætlum að hittast fljótlega og fara yfir áherslur í starfinu. Það er bara óumflýjanlegt að það fylgja breytingar nýju fólki,“ segir Kristján.

Kristján segist meta öll verk Geirs Gunnlaugssonar á þeim umbrotatímum sem ríktu þegar hann var landlæknir. Hann hafi sinnt þessum verkefnum mjög vel. „Það er ekkert einföld ákvörðun að gera upp á milli tveggja einstaklinga sem eru metnir hæfir,“ segir hann.



Kristján segir að reynsla Birgis af stjórnun hafi vegið þungt. „Ég gerði mjög stífar kröfur um reynslu af stjórnun og það koma alltaf upp þær aðstæður að það kann að vera rétt að skipta um og gefa færi á nýjum áherslum. Þannig háttar til í þessu tilviki,“ segir Kristján. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×