Innlent

Snýr aftur til Boston á Bacon styrk

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
"Öll mín ástríða snýr að því að miðla þekkingunni þannig að hún gagnist Íslandi og komi heiminum öllum til góða,“ segir Halla Hrund Logadóttir.
"Öll mín ástríða snýr að því að miðla þekkingunni þannig að hún gagnist Íslandi og komi heiminum öllum til góða,“ segir Halla Hrund Logadóttir. Vísir/Ernir
Halla Hrund Logadóttir, framkvæmdastjóri Íslenska Orkuháskólans, ætlaði aldrei að sérhæfa sig á sviði orkumála. Dvöl í Tógó kveikti áhuga hennar á málaflokknum sem hún segir mikilvægasta umhverfismál okkar tíma.

Halla Hrund hlaut á dögunum fullan skólastyrk við Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum þangað sem hún flyst búferlum með eiginmanni sínum og barni í sumar. Meistaranám í opinberri stjórnsýslu er á dagskránni en styrkurinn opnar hins vegar miklu fleiri dyr, meðal annars aðgengi að sérfræðingum úr öllum áttum við einn virtasta háskóla í heimi.

Kviknaði „ljós“ í Tógó

Halla er vel kunnug því að dvelja og nema á erlendri grundu. Að loknu námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands árið 2005 bjó hún meðal annars í Brussel í Belgíu og starfaði fyrir utanríkisráðuneytið hjá sendiráði Íslands.  Hún stundaði nám í alþjóðahagfræði við LSE í London og Tuft háskólann í Boston 2012 en orkumál voru farin að eiga hug hennar allan.

Sumarið 2010 hélt hún til Tógó í Vestur-Afríku þar sem hún aðstoðaði ungt fólk í nokkra mánuði við gerð viðskiptaáætlana við háskólann í Lomé.

Í Tógó kviknaði hjá henni áhugi á orkumálum og fór hún að velta fyrir sér hve mikilvægt rafmagnið væri til þess að samfélög okkar hreinlega virki. Þetta sé hlutur sem við Íslendingar tökum sem sjálfsögðum en víða sé hann það alls ekki. Vel mætti staldra aðeins við og velta fyrir sér hvað myndi breytast ef allt í einu væri ekkert rafmagn.

„Maður er svo spilltur hérna heima, fer í bað hvenær sem er og skilur eftir öll ljós kveikt,“ segir Halla sem fann hve erfitt var að koma hlutum í verk í Afríkuríkinu. Þar var hún með fartölvuna sína en það dugði skammt ef ekki var hægt að setja hana í samband sökum takmarkaðs aðgengis að rafmagni.

„Þarna vann fólk viðskiptaáætlanirnar sínar með blýanti og skrifaði á blað,“ rifjar Halla upp og átti erfitt með að sætta sig við þá staðreynd að geta ekki sest niður á kvöldin og unnið vegna rafmagnsleysis. Segja má að dvölin í Tógó hafi breytt stefnu hennar í lífinu töluvert.

Síðan Halla lauk meistaranámi í alþjóðahagfræði við Tuft háskólann í Boston 2012 hefur hún sinnt ráðgjafastörfum fyrir Harvard háskóla samhliða vinnu sinni hjá Íslenska orkuháskólanum. Nú heldur hún aftur til Boston, á styrk á sviði umhverfis- og orkumála sem kenndur er við Louis nokkurn Bacon.



 

Íslenski Orkuháskólinn er samstarfsverkefni Háskólans í Reykjavík, Orkuveitu Reykjavíkur og ÍSOR. Hann hefur verið starfræktur frá 2008.Vísir/Ernir
Kveður Orkuháskólann

Halla, sem er 35 ára, hefur undanfarin tvö og hálft ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra Íslenska Orkuháskólans. Í tíð Höllu hefur nemendum fjölgað úr sex á ári, sem voru þegar hún tók við starfinu, í um 25 nema á ári við skólann í dag. Hún segir gaman að sjá hve skólinn hefur vaxið en það sé engin tilviljun. 

„Þetta er vandræðalega skemmtilegur málaflokkur,“ segir Halla sem talar af ástríðu um orkumál. Flestir nemendur skólans koma frá Bandaríkjunum en langstærsti hluti þeirra kemur að utan. 

„Orkumál eru stærsta umhverfismál okkar tíma,“ segir Halla sem telur að geirinn muni þróast hratt á næstu árum. Breytingar séu að verða svo örar og miklu máli skipti að fylgjast með í hvaða átt við stefnum. Orkufræðin séu ákveðin grunnstoð í öllum samfélögum og varði öll svið, allt frá títtnefndum umhverfismálum yfir í lífsgæði.

Í grein sem Halla skrifaði í Fréttablaðið í fyrra lýsti hún því meðal annars hve mikilvægt aðgengi að rafmagni væri fyrir jafnrétti kynjanna.

Staðreyndin er þó sú að aðgangur að rafmagni og rafmagnsknúnum tækjum hefur í áratugi hjálpað konum á Vesturlöndum að fá tíma frá „hefðbundnu hlutverkum“ til að sækja störf og menntun utan heimilisins – og efla þannig stöðu sína í samfélaginu. Í Bandaríkjunum er t.d. oft rætt hvernig rafmagnsknúna þvottavélin veitti konum sveigjanleika til vinnu utan heimilis og þar með aukin fjárráð,“ sagði Halla í pistli sínum.

Michael Porter, prófessor við Harvard-háskóla og einn af virtustu hagfræðingum heims, sótti Ísland heim á dögunum.Vísir/Anton Brink
Aðgengi að sérfræðingum

Halla flytur utan um mánaðarmótin júní-júlí. Hún segir um ómetanlegt tækifæri að ræða að fá styrkinn sem snúi ekki aðeins að niðurfellingu skólagjalda, sem nemur fleiri milljónum króna, heldur fái hún aðgengi að sérfræðingum þvert á Harvard. Sérfræðingum á sviði umhverfis- og orkumála en einnig innan lagadeildar, viðskiptadeildar og fleiri deilda.

Þá fær hún einnig að taka þátt í mótun umhverfis- og orkumála hjá skólanum þar sem unnið verður með leiðandi fyrirtækjum og stofnunum sem eru að gera áhugaverða hluti sem tengjast orku- og umhverfismálum.

Um 500 manns verða í MPA-náminu sjálfu þar sem inntökukröfur eru meðal annars átta ára reynsla.

„Þetta verður áhugaverður hópur og ég mun örugglega ekki síður læra af samnemendum mínum,“ segir Halla. Vonandi geti hún lagt eitthvað af mörkum til annarra nemenda.

Halla Hrund hefur verið ráðgjafi fyrir Harvard-háskóla undanfarin ár.
Kemur aftur heim 

Frá hruni hafa margir Íslendingar haldið utan í nám og vinnu og virðast í auknum mæli ekki reikna með að snúa aftur heim í náinni framtíð. Halla hlær spurð út í þetta og segist ætla að nýta tímann úti sem allra best en fólk megi eiga von á henni aftur til Íslands fyrr en síðar, hvort sem fólki líkar betur eða verr.

„Ísland hefur staðið framarlega í þessum geira og vonandi getur maður nýtt þessi tengsl í þágu þeirra í framtíðinni,“ segir hún. Öllum sé hollt og gott að fara út fyrir landsteinana og vinna með alls konar fólki en henni telst til að hafa dvalið sex ár erlendis við nám og störf.

„Öll mín ástríða snýr að því að miðla þekkingunni þannig að hún gagnist Íslandi og komi heiminum öllum til góða,“ segir Halla. 

„Ég ætla að nota tímann úti sem best.“


Tengdar fréttir

Rafmagnað jafnrétti

Við erum stödd í Tógó árið 2009. „Gjörðu svo vel“, segi ég við tógósku „systur“ mína og rétti henni fartölvuna mína. „Nýttu þetta nú sem allra best fyrir þig og þína.“ „Takk,“ segir hún og brosir hringinn.

Grein Höllu birtist í UN Chronicle

"Þetta er stærsta umhverfismál okkar tíma,“ segir Halla Hrund Logadóttir, sem á grein í nýjasta tölublaði hins virta UN Chronicle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×