Erlent

Snúa aftur eftir ár í geimnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Scott Kelly og Mikhail Kornienko.
Scott Kelly og Mikhail Kornienko. Mynd/NASA
Geimfararnir Scott Kelly og Mikhail Kornienko munu koma til jarðarinnar í nótt eftir að hafa varið tæpu ári í Alþjóðlegu geimstöðinni. Scott Kelly hefur sjálfur líkt tímanum í geimnum við það að hafa verið í útilegu, án rennandi vatns í eitt ár.

Í heildina munu þeir Kelly og Kornienko hafa verið 340 daga út í geimnum, en tilefni lengd ferðar þeirra er að rannsaka áhrif slíkrar langvarandi veru í geimnum á líkamann. Rannsóknin er hluti af því verkefni að senda mannaða geimflaug til Mars.

Það ferðalag myndi taka um 30 mánuði.

Scott Kelly er fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að vera svo lengi í geimnum en á árunum 1987 til 1995 voru fjórir Rússar lengur en eitt ár á braut um jörðu. Venjan er að geimfarar séu í um hálft ár um borð í geimstöðinni. En lengri vera en það hefur slæm áhrif á líkama geimfara.

Sjón hefur versnað hjá þriðjungi bandarískra geimfara. Þegar geimfarar eru lengi í geimnum breytir augað lítillega um lögun. Talið er líklegt að það gerist vegna breytinga á vökvadreifingu líkamans í þyngdarleysi.

Bein rýrna, hjörtu missa styrk, jafnvægisskyn breytist og margt fleira. Auk líkamlegra breytinga vilja Bandaríkjamenn og Rússar kanna hvaða sálfræðilegu áhrif ársvera í geimnum hefur á geimfara.

Sjálfur hefur Kelly sagt að sjón sín hafi breyst út í geimi, en annars sé bæði líkami hans og hugur í góðu ástandi. Hann gæti jafnvel verið eitt ár í viðbót um borð í geimstöðinni. Hins vegar hafi viðskilnaður hans og fjölskyldu hans verið erfiður.

Þá segir hann að síðast þegar hann hafi verið um borð í geimstöðinni, í tæpt hálft ár, þá hafi hann verið mun spenntari fyrir því að komast aftur til jarðarinnar. Sérstaklega þar sem mágkona hans, þingkonan Gabrielle Giffords, hafði verið skotin ásamt átján öðrum tveimur mánuðum áður.

Hér má sjá Scott Kelly ræða um geimferðina löngu.

Geimfararnir um borð í geimstöðinni eru iðulega mjög virkir á samfélagsmiðlum og birta fjölmargar myndir úr geimnum. Scott Kelly hefur verið verulega duglegur við það en Mikhail Kornienko má ekki finna á Twitter eða Instagram, né VK sem er rússneskur samfélagsmiðill.

NASA hefur tekið flottustu myndir Kelly saman, en hægt er að sjá þær hér. Hér að neðan má sjá Twittersíðu hans og tíst frá Barack Obama.


Í viðtali við CNN sagði Kelly að hann hefði séð sumt af því fallegasta sem jörðin bjóði upp á. Hann hefði séð norðurljós úr geimnum, gríðarstóra fellibyli og margt fleira.

Þá sagðist hann einnig hafa orðið meðvitaðri um mengun á jörðinni. Á sumum stöðum væri alltaf mengun og að veðurofsinn hefði versnað. Hann segist sannfærður um að breytingarnar séu af mannavöldum.

Eftir lendinguna í nótt verður farið með þá Kelly og Kornienko á sjúkrahús, þar sem hlúð verður að þeim og þeir rannsakaðir. Kelly segist þó hlakka mest til þess að stinga sér í sundlaugina sína.

Þetta er fjórða geimferð hans og jafnframt sú lengsta, en Kelly dregur í efa að hann muni fara aftur út í geim.

Hér að neðan má sjá beina útsendingu frá myndavélum sem hefur verið komið fyrir utaná geimstöðinni. Upplýsingar um staðsetningu geimstöðvarinnar má sjá hér.


Tengdar fréttir

Eldingar úr geimnum - Myndband

Breski geimfarinn Tim Peake segir ótrúlegt hve oft eldingu geti skotið niður til jarðar á skömmum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×