Handbolti

Snorri Steinn sá eini sem fagnaði sigri í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Getty
Snorri Steinn Guðjónsson var eini Íslendingurinn sem fagnaði sigri í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en bæði Ásgeir Örn Hallgrímsson og Arnór Atlason urðu að sætta sig við jafntefli á útivelli.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Sélestat í 31-27 útisigri á Cesson-Rennes. Snorri var næstmarkahæstur í liðinu á eftir Frédéric Beauregard sem skoraði tíu mörk.

Frábær seinni hálfleikur lagði grunninn að sigrinum en Sélestat var fjórum mörkum undir í hálfleik, 17-13. Snorri Steinn kom Sélestat yfir í 24-23 en liðið skoraði síðan sjö af næstu tíu mörkum og tryggði sér sigurinn.

Þetta var aðeins fjórði sigur Sélestat í 14 leikjum á tímabilinu en liðið var búið að tapa þremur leikjum í röð fyrir leikinn.

Ásgeir Örn Hallgrímsson klikkaði á öllum þremur skotunum sínum þegar  Nîmes gerði 27-27 jafntefli á heimavelli á móti Créteil.

Arnór Atlason skoraði 2 mörk úr 7 skotum þegar Saint Raphael gerði 28-28 jafntefli við Tremblay á útivelli.

Saint Raphaël er í 2. til 3. sæti með Paris Saint-Germain en Nimes er í 12. Sætinu og þriðja neðsta sæti deildarinnar,  einu stigi á undan Sélestat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×