Handbolti

Snorri Steinn heldur áfram að raða inn mörkum í Frakklandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson skorar og skorar.
Snorri Steinn Guðjónsson skorar og skorar. vísir/afp
Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í handbolta, heldur áfram að fara á kostum í frönsku 1. deildinni í handbolta.

Hann var enn og aftur markahæstur hjá liði sínu Sélestad í kvöld þegar það lagði ÁsgeirÖrn Hallgrímsson og félaga hans í Nimes, 32-26, á útivelli eftir að vera 17-13 yfir í hálfleik.

Snorri Steinn skoraði átta mörk, þar af eitt úr víti, úr ellefu skotum, en hann er langmarkahæstur í Sélestad-liðinu með 53 mörk í sex leikjum og skotnýtingu upp á 63 prósent.

Sélestad hafði ekki unnið síðan í annarri umferð, en liðið er nú í tíunda sæti af fjórtán liðum með fjögur stig, sæti fyrir ofan Nimes sem er einnig með fjögur stig.

Róbert Gunnarsson og hans menn í stórliði Paris Saint-Germain töpuðu óvænt fyrir Chambéry á útivelli í kvöld, 33-32.

Chambéry hafði tögl og haldir á leiknum lengst af, en það komst mest í 24-16 í seinni hálfleik. PSG minnkaði muninn jafnt og þétt en heimamenn héldu út og fögnuðu sætum sigri. PSG er með átta stig í þriðja sæti deildarinnar eftir sex umferðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×