Handbolti

Snorri Steinn fær svaka meðmæli frá Aroni Pálmarssyni | Þvílíkur handboltaheili

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson og Snorri Steinn Guðjónsson fagna hér góðri sókn með íslenska landsliðinu.
Aron Pálmarsson og Snorri Steinn Guðjónsson fagna hér góðri sókn með íslenska landsliðinu. Vísir/AFP
Snorri Steinn Guðjónsson gaf það út í gær að hann hafi spilað sinn síðasta landsleik fyrir Ísland. Fimmtán ára landsliðsferli leikstjórnandans er þar með á enda.

Aron Pálmarsson var samherji Snorra Steins í landsliðinu síðustu sjö árin og hann er einn af mörgum sem hafa talað vel um Snorra Stein eftir að fréttist af endalokum Snorra með landsliðinu.

Aron sem leikur með Veszprém í Ungverjalandi tjáði sig um Snorra Stein inn á Twitter-síðu sinni. Það geta margir tekið undir orð hans sem hitta beint í mark.

„Snorri einn besti leikstjórnandi sem við höfum átt, einn besti sem ég hef spilað með. Þvílíkur handboltaheili, geggjaður ferill!,“ skrifar Aron.

Aron ætti að vita þetta enda spilar hann sjálfur sem leikstjórnandi og hefur spilað í Þýskalandi og Meistaradeildinni í mörg ár. Aron er oftast skytta hjá landsliðinu og veit því líka hvernig er að leika við hlið Snorra.

Snorri Steinn skoraði 848 mörk í 257 landsleikjum eða 3,3 að meðaltali í leik. Aron sjálfur hefur skorað 415 mörk í 107 landsleikjum eða 3,9 að meðaltali.

Snorri Steinn er fimmti markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi á eftir þeim Guðjóni Val Sigurðssyni, Ólafi Stefánssyni, Kristjáni Arasyni og Valdimar Grímssyni.

Snorri Steinn er jafnframt markahæsti leikstjórnandi íslenska landsliðsins frá upphafi en hann skoraði 317 mörkum meira en Geir Hallsteinsson og 359 mörkum meira en Sigurður Gunnarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×