Handbolti

Snorri Steinn: Miklu skemmtilegra í Danmörku og Frakklandi en Þýskalandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson hefur farið vel af stað með Nimes í frönsku úrvalsdeildinni. Landsliðsmaðurinn, sem færði sig um set frá Sélestat til Nimes í sumar, er markahæsti leikmaður frönsku deildarinnar eftir fjórar umferðir en Nimes situr í 3. sæti með sex stig.

Sjá einnig: Snorri markahæstur í Frakklandi

Snorri kann vel við sig í Nimes eins og fram kom í viðtali við Hjört Hjartarson í útvarpsþættinum Akraborginni í gær.

Kominn í betra lið

„Ég er mjög ánægður með þetta, allavega enn sem komið er. Ég er virkilega ánægður með þessi skipti,“ sagði Snorri sem segir muninn á Sélestat og Nimes talsverðan en fyrrnefnda liðið féll úr frönsku deildinni í fyrra.

„Það er fyrst og fremst gæðamunur. Það eru fleiri betri leikmenn í Nimes og liðið er betra. Svo er líka staðurinn, þetta er á sitthvorum endanum á landinu. Á meðan Sélestat var norðarlega, alveg við Þýskaland, þá er þetta sunnarlega og mér finnst það skemmtilegra.

„Þetta er virkilega góður staður og skemmtileg borg,“ sagði Snorri sem segir það hjálpa að vera með öðrum Íslendingi í liði en Ásgeir Örn Hallgrímsson er á sínu öðru tímabili með Nimes.

„Það munar rosalega um það þegar maður er í atvinnumennskunni. Þetta er tvennt ólíkt, það er engin spurning. Þetta hefur vinninginn, allavega enn sem komið er.“

Metnaður til að gera vel hjá Nimes

Sem áður sagði hefur Nimes byrjað tímabilið vel og unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum.

„Þetta er fljótt að breytast. Það er lítið búið, fjórir leikir og þannig séð ekkert búið að gerast nema að við höfum byrjað þetta vel og komið okkur í þægilega stöðu en það er alveg hægt að kasta þessu frá sér með 1-2 leikjum,“ sagði Snorri sem segir að það sé metnaður til að gera vel hjá Nimes.

„Liðið var um miðja deild í fyrra og spilaði mjög vel eftir áramót og byrjunin á tímabilinu í ár er svolítið framhald af því. Þeir vilja ekkert vera neðar en í fyrra og allavega um miðja deild og ef mögulegt er, klifra upp töfluna hægt og rólega.

„Það er smá neisti í klúbbnum og með forseta sem vill gera vel án þess að fara fram úr sér peningalega. Þeir vilja komast ofar með tíð og tíma en gera það samt á sínum hraða.“

Snorri í leik með Rhein-Neckar Löwen. Hann kann betur við sig í Frakklandi en Þýskalandi.vísir/getty
Tekur undir með Vigni

Félagi Snorra í íslenska landsliðinu, Vignir Svavarsson, var í áhugaverðu viðtali í Akraborginni fyrr í vikunni þar sem hann ræddi um muninn á atvinnumennskunni í Þýskalandi og Danmörku.

Þýskaland kom ekki vel út úr þeim samanburði en Vignir fór ekki fögrum orðum um dvölina þar og sagðist hafa verið nálægt því að leggja skóna á hilluna þegar hann lék með Minden.

„Veran hjá Minden drap löngunina hjá mér að spila handbolta. Þetta var orðið spurning um að hætta þessu og pakka skónum niður í tösku og fara að gera eitthvað annað,“ sagði Vignir í viðtalinu en hann fann gleðina á ný eftir að hann fór til Danmerkur.

Snorri hefur reynslu af bæði dönsku og þýsku deildinni og tekur að mörgu leyti undir orð Vignis.

„Hann fór hamförum,“ sagði Snorri og hló. „Ég get tekið undir margt sem hann sagði. Ég hafði bara svo rosalega gaman að þessu viðtali. Við Ásgeir hlógum að þessu fyrir leikinn í gær (á miðvikudag), mér fannst þetta æðislegt. Það var eins og hann væri búinn að bíða eftir þessu viðtali og svo ýtti hann bara á „play“.

„En ég er búinn að prófa Þýskaland, Danmörku og Frakkland og kalt mat, þá er Þýskaland í 3. sæti af þessum löndum. Ég veit ekki hvað það er en það er þyngra yfir þessu í Þýskalandi og menn ekki eins léttir á því.

„En þetta er besta og erfiðasta deildin og sem handboltamaður viltu auðvitað prófa að spila og standa þig þarna. Þetta ætti að vera mælikvarðinn hjá handboltamönnum en eins og Vignir kom inn á í öllum þessum viðtölum sínum snýst þetta ekki bara um að spila handbolta. Þú vilt líka aðeins njóta lífsins og hafa gaman og mér fannst miklu skemmtilegra í Danmörku og Frakklandi en nokkurn tímann í Þýskalandi,“ sagði Snorri að endingu.

Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×