Innlent

Snákur fannst á heimili í Kópavogi

Atli Ísleifsson skrifar
Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt voru tveir menn handteknir við veitingahús í Austurstræti.
Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt voru tveir menn handteknir við veitingahús í Austurstræti. Vísir/Anton
Lögregla á höfuðborgarsvæðinu þurfti að sinna ýmsum málum í gærkvöldi og nótt. Afskipti voru höfð af pari í Kópavogi sem grunuð eru um vörslu og framleiðslu fíkniefna. Þá fannst snákur á heimilinu sem var fjarlægður til eyðingar.

Í Kópavogi var ölvaður maður handtekinn við veitingahús þar sem hann hafði verið að áreita fólk.

Í miðborg Reykjavíkur var maður handtekinn um eignaspjöll.  „Maðurinn var í mjög annarlegu ástandi og er grunaður um að skemma bifreiðar.  Maðurinn vistaður í fangageymslu meðan ástand hans lagast og hægt verður að ræða við hann,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Um tvöleytið í nótt var maður handtekinn í Austurstræti grunaður um líkamsárás. „Maðurinn er grunaður um að hafa slegið stúlku í andlitið og ætlaði hún á Slysadeild til aðhlynningar.  Maðurinn var ölvaður og var hann vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.“

Skömmu fyrir klukkan þrjú í nótt voru tveir menn handteknir við veitingahús í Austurstræti. „Mönnunum hafði verið neitað um inngöngu á barinn og ruddust þeir þá inn og m.a. var dyravörður sleginn í andlitið.  Mennirnir eru erlendir og voru í annarlegu ástandi.  Þeir gátu ekki gert grein fyrir sér og höfðu ekki skilríki meðferðis.  Vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls.“

Þá var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi sem hafði ráðist á mann og konu við Ingólfstorg.  Maðurinn hafði hlaupið á brott og fannst ekki.  Stúlkan ætlaði að leita aðstoðar á slysadeild.

Þá komu einnig upp nokkur mál þar sem lögregla stöðvaði fólk við akstur undir áhrifum ágengis eða fíkniefna.

Tólf aðilar gistu fangageymslur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×