Erlent

Smyglararnir sekir um fjöldamorð

Atli Ísleifsson skrifar
Zeid Ra'ad Zeid al-Hussein er nýr mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Zeid Ra'ad Zeid al-Hussein er nýr mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna. Vísir/AFP
Zeid Ra'ad Zeid al-Hussein, nýr mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að frásagnir eftirlifenda þar sem báti með fleiri hundruð flóttamönnum var sökkt í Miðjarðarhafi fyrr í mánuðinum, bendi til þess að brot hafi verið framið þar sem hinir seku verði að sæta ábyrgð.

Um fimm hundruð flóttamenn drukknuðu þegar bátnum var sökkt undan ströndum Möltu fyrr í mánuðinum.

Al-Hussein hvetur egypsk stjórnvöld að aðstoða evrópsk ríki við að hafa uppi á smyglurunum sem sökktu bátnum sem lagði úr höfn frá egypsku hafnarborginni Damietta. Sagði hann smyglarana líklega seka um fjöldamorð og nauðsynlegt sé að draga þá fyrir rétt.

Mannréttindastjórinn sagði mjög mikilvægt að binda endi á refsileysi þegar kemur að slíkum brotum. Sagði hann þá sem væru á flótta undan ringulreið og stríðsátökum heima fyrir, svo sem allir þeir sem nú flýja Sýrland, ættu rétt á því að leita skjóls. Nauðsynlegt sé að endurmeta allar þær aðstæður sem fær þúsundir til að leggja á sig hættulegar ferðir á borð við þessa.

Á hverju ári láta fleiri þúsundir flóttamanna lífið þegar þeir reyna að komast til Evrópu á illa búnum og ofhlöðnum bátum yfir Miðjarðarhaf.

Tveir Palestínumenn sem komu lífs af, greindu Alþjóðaflóttamannastofnuninni frá því að smyglararnir hafi viljandi sökkt bátnum eftir að flóttamennirnir neituðu að færa sig yfir í smærri bát. Segja þeir að um fimm hundruð manns hafi verið í bátnum, þar af milli 50 og 100 börn.

Í frétt Guardian segir að flóttamennirnir um borð í bátnum hafi meðal annars verið Palestínumenn, Egyptar, Súdanar, Sýrlendingar, og Erítreumenn, en reiknað er með að smyglararnir hafi verið Palestínumenn eða Egyptar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×