Menning

Smjörlíkisverksmiðjan mjólkaði peningum í kassann

 Margrét við hið hundrað ára gamla hús númer 45 á Hverfisgötu sem Matthías Einarsson læknir byggði.
Margrét við hið hundrað ára gamla hús númer 45 á Hverfisgötu sem Matthías Einarsson læknir byggði. Fréttablaðið/ Andri Marinó
„Ég ætla að segja frá tveimur húsum við Hverfisgötu og tveimur við Veghúsastíg. Þau er búið að gera fallega upp og breyta í íbúðahótel undir heitinu Reykjavík Residence en dagskráin snýst fyrst og fremst um söguna.“

Þetta segir Margrét Sveinbjörnsdóttir menningarmiðlari sem ætlar að skyggnast aftur í tímann á Menningarnótt milli klukkan 14 og 17.



Svanur Jóhannesson bókbindari verður með Margréti og segir frá í húsinu á Hverfisgötu 21, en þar höfðu Hið íslenska prentarafélag og Félag bókagerðarmanna aðsetur í sjö áratugi.

Garðar Cortes söngskólastjóri rifjar upp minningar úr húsinu númer 45 við Hverfisgötu þar sem Söngskólinn í Reykjavík var til húsa í aldarfjórðung.

Við Veghúsastíg 9 er Bergshús, nefnt eftir Bergi Einarssyni, fyrsta sútara landsins sem byggði það og bjó þar með fjölskyldu sína og var með verkstæði og verslun.

„Þangað kom Danakonungur oftar en einu sinni með fylgdarlið og keypti skinnavöru. Það er til mynd af kóngsa í búðinni,“ segir Margrét.

„Á Veghúsastíg 7 var smjörlíkisgerðin Smári, veldi Ragnars í Smára og því mikilvægur staður í menningarsögu okkar.

Til er skemmtileg tilvitnun í Halldór Laxnes.

„Smjörlíkisverksmiðja hans mjólkaði peningum í kassann um leið og viðbiti handa landanum sem var þá illa kominn af feitmetisleysi. Hagnaðurinn af þessari magarínstasjón fór í að gefa út bækur, kaupa málverk og styrkja tónlistarlíf landsins…“"

Sögusýning, sem Brúarsmiðjan og PORT hönnun hafa sett upp, er á göngum allra fjögurra húsanna á Menningarnótt á morgun, milli klukkan 14 og 17.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×