Innlent

Smitberinn vanrækti að mæta í blóðprufu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Lögreglan rannsakar málið í samstarfi við sóttvarnalækni. Að minnsta kosti ein kona er smituð eftir manninn.
Lögreglan rannsakar málið í samstarfi við sóttvarnalækni. Að minnsta kosti ein kona er smituð eftir manninn. vísir/pjetur
„Við höfum ekki neinar upplýsingar um það hvort hann hafi mætt til læknis. Við erum að skoða það núna hvort hann hafi verið boðaður til læknis og hvernig málunum er háttað,“ segir Haraldur Briem, fráfarandi sóttvarnalæknir, um hælisleitandann sem situr nú í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa vísvitandi smitað ungar konur af HIV-veirunni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mætti maðurinn í læknisskoðun sem hann var boðaður til í október í fyrra. Hann var í þrígang boðaður í blóðprufu í kjölfarið en vanrækti að mæta í öll skiptin.

„Útlendingastofnun hefur ekki heimild til að knýja hælisleitendur í heilbrigðisskoðun,“ segir Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar. Hún bætir við að Útlendingastofnun fái ekki upplýsingar um undirliggjandi sjúkdóma nema viðkomandi veiti heimild til þess eða leggi þær fram sjálfur.

Að sögn Kristínar panta þjónustuaðilar tíma fyrir hælisleitanda í heilsufarsskoðun og sjá um að boða viðkomandi í þá skoðun. Þjónustuaðilar í dag séu Reykjanesbær, Reykjavík og Útlendingastofnun.

„Heilsugæslan gefur viðkomandi tíma í almenna heilsufarsskoðun og þjónustuaðili lætur viðkomandi vita um þann tíma. Í þeirri skoðun segir heilsugæslan viðkomandi hvenær hann á að mæta í blóðrannsókn og berklapróf sem gerist síðar,“ segir Kristín. 


Tengdar fréttir

Á annan tug kvenna mögulega smitaðar

Karlmaður var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gær grunaður um að hafa haft óvarin kynmök við íslenskar konur vitandi það að hann væri smitaður af HIV-veirunni. Að minnsta kosti ein kona er smituð. Sóttvarnarlæknir rekur smitleiðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×