Lífið

Smíðar íslenska ofurhetjusögu

Baldvin Þormóðsson skrifar
Júlíus finnur fyrir miklum áhuga meðal krakka á að lesa myndasögur.
Júlíus finnur fyrir miklum áhuga meðal krakka á að lesa myndasögur. mynd/aðsend
„Sagan fjallar um íslenskan menntskæling sem er valinn af landvættunum til þess að vernda landið gegn rísandi ógn,“ segir Júlíus Valdimarsson en hann er að teikna íslenska ofurhetjamyndasögu sem ber nafnið Landvætturinn.

„Hann fær ofurkrafta frá landvættunum, flug arnarins, skráp nautsins, krafta steinrisans og eld drekans,“ segir Júlíus sem vinnur myndasöguna í samstarfi við vin sinn Bjarka Dag Svanþórsson, sem skrifaði söguna, en Júlíus sér um að teikna myndirnar.

„Þegar við vorum litlir og uppgötvuðum myndasögur þá gerðist bara eitthvað,“ segir hann. „Við viljum hjálpa íslenskum krökkum að upplifa sömu tilfinningu.“

Júlíus vinnur í félagsmiðstöð og hefur tekið eftir miklum áhuga meðal yngri kynslóða á að lesa myndasögur sem hafa svo ekki nógu mikla kunnáttu í ensku.

„Sérstaklega ofurhetjumyndasögur,“ segir hann. „Þau leita til mín og vilja fá íslenskar en það eru ekki til nógu margar í þessum flokki.“

Júlíus gerir ráð fyrir að fyrsta myndasaga seríunnar komi út fyrir jól en eftir hana eru fimm aðrar sem þarf til þess að klára söguna.

„Okkur finnst þetta náttúrulega mjög spennandi,“ segir myndasögusmiðurinn. „Sérstaklega hjá okkur eins og hvernig við komumst inn í þennan heim, þetta er mjög mikil ástríða.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×