Innlent

Smárúta valt á Þingvallavegi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi á Þingvallavegi þegar önnur rúta valt þar fyrr í vetur.
Frá vettvangi á Þingvallavegi þegar önnur rúta valt þar fyrr í vetur. Vísir/vilhelm
Uppfært klukkan 16:57: Smárúta með 18 til 19 manns innanborðs valt á Þingvallavegi við Grafningsveg laust eftir klukkan 16 í dag.

Sjúkraflutningamenn eru nú komnir á staðinn en samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu voru minniháttar áverkar á einhverjum farþeganna en enginn alvarlega slasaður.

Búið er að ná öllum farþegunum úr rútunni og er verið að koma þeim í skjól á meðan beðið er eftir rútu frá slökkviliðinu sem getur ferjað fólkið í bæinn þar sem ekki komast ekki allir í sjúkrabílana. Þá er verið að kanna áverka fólksins.

Leiðindaveður er á Þingvallavegi, rok, skafrenningur, lítið skyggni og hálka.

Alls fóru fjórir sjúkrabílar á vettvang frá höfuðborgarsvæðinu og tveir dælubílar auk bíla frá Selfossi.

Uppfært klukkan 16:31: Sjúkraflutningamenn eru ekki komnir á staðinn samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra slökkviliðsins en meiðsl farþegar eru minniháttar samkvæmt því sem fram kom í útkallinu. Sjúkrabílar og dælubílar frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins eru nú á leið á staðinn og þá eru sjúkrabílar einnig á leiðinni á staðinn frá Selfossi.

Búið er að loka veginum um Mosfellsheiði og Nesjavallaleið, samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi. Mjög hált er á vegum, hvassviðri og ekkert ferðaveður.  

Þá er líka búið að loka bæði Hellisheiði og Þrengslum vegna veðurs en veður versnar nú all víða um landið.

Nánari upplýsingar um færð á vegum má nálgast á vef Vegagerðarinnar.

Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór
Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×