Innlent

Smala fé snemma í Kelduhverfi "Viljum hafa vaðið fyrir neðan okkur"

Fjárbændur í kelduhverfi vilja vera á undan náttúrunni ef Jökulsá skyldi flæða yfir sandana.
Fjárbændur í kelduhverfi vilja vera á undan náttúrunni ef Jökulsá skyldi flæða yfir sandana.
Fjárbændur í Kelduhverfi í Norðurþingi hafa síðustu daga verið að ná fé af svæðinu norðan Ásbyrgis, þar sem Jökulsá á Fjöllum kemur niður, í varúðarskyni ef flóð hlypi í ána vegna eldgoss í Bárðarbungu. Bændur smala óvenju snemma í ár af þessum sökum.

Jón Halldór Guðmundsson, bóndi á Ærlæk í Kelduhverfi, á töluvert af fé á sléttlendinu þar sem Jökulsá breiðir úr sér. Vill hann hafa vaðið fyrir neðan sig ef ske kynni að brysti á með hinu versta. Þegar Fréttablaðið náði tali af honum í gær var hann í eftirleitum og hafði þá deginum áður náð allmörgu fé nær heimahúsum og af hættusvæði.

„Við tökum þetta alvarlega og getum lítið annað gert en að smala fé af svæðinu. Þetta er nokkuð víðfeðmt svæði hérna í Kelduhverfinu og við viljum bara vera vissir um það að verða á undan náttúrunni. Þegar viðbúnaðarstig var hækkað í appelsínugult í hádeginu á mánudag þá ákváðum við að ná í fé og koma því á svæði,“ segir Jón Halldór.

Bændur á Ærlæk og Ærlækjarseli hafa verið að ná í fé af þessu svæði síðustu tvo daga og einnig hafa tvö stór hrossastóð, sem voru örlítið vestur af Ásbyrgi, verið færð til á öruggara svæði ef til hamfaraflóðs kæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×