Innlent

Slysið skemmtiatriði fyrir ferðamenn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ferðamennirnir mynduðu slysstaðinn hátt og lágt. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Ferðamennirnir mynduðu slysstaðinn hátt og lágt. Myndin tengist fréttinni ekki beint. VÍSIR/PJETUR
„Þetta var bara algjör viðbjóður og vanvirðing við fólkið sem slasaðist,“ segir vegfarandinn Reynir Hjartarson um hegðun á fjórða tug ferðamanna sem komu að bílslysinu á Akureyri á ellefta tímanum í dag. Málsatvik voru þau að tveir bílar sem komu  úr gagnstæðri átt skullu harkalega saman og voru farþegarnir fluttir á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.

Löng bílaröð myndaðist frá slysstað því loka þurfti veginum tímabundið á meðan starfsmenn lögreglu, sjúkra- og slökkviliðs athöfnuðu sig. Einn bílanna sem kom að slysinu var langferðabíll með erlenda ferðamenn og segir Reynir að þegar rútan hafði stöðvað hafi bílstjórinn opnað dyr bílsins og hleypt farþegunum út.

„Fyrst stökk ein kona út úr rútunni, hljóp í átt að slysstað og því næst rakleitt inn í rútuna aftur. Hún gaf þá öðrum farþegum bílsins merki og innan skamms þyrptust út um 30 ferðamenn með myndavélarnar á lofti og hlupu í átt að bílunum. Fóru þeir að mynda slysstaðinn hátt og lágt á meðan var verið að klippa fólkið út úr bílunum,“ segir Reynir.

Fararstjórinn tók ákvörðunina

Honum hafi verið virkilega ofboðið vanvirðingin sem ferðamennirnir sýndu þeim slösuðu. „Ég hreinlega trúði því ekki að litið væri á þetta sem eitthvað skemmtiatriði fyrir ferðamenn,“ bætti hann við. Reynir gaf sig á tal við bílstjóra rútunnar sem sagði að ákvörðunin að hleypa farþegunum úr bílnum hafi ekki verið hans – fararstjórinn hafi farið fram á að dyrum langferðabílsins yrði lukið upp.

„Ég vona að þetta sé ekki eitthvað sem er kennt í leiðsögumannaskólanum – að það sé í lagi fyrir ferðamann að taka myndir af slösuðu fólki. Með nútímatækninni er lítið mál að dreifa myndum á netinu og ég hefði persónulega ekki áhuga á því að sjá myndir af vinum mínum og vandamönnum á samfélagsmiðlunum eftir að þeir hefðu lent í slysi sem þessu,“ segir Reynir.

Hann bætir við að aðkoman að slysinu hafi alls ekki verið falleg. Bílarnir voru illa leiknir eftir samstuðið og þurfti að  klippa annan bílstjórann úr flaki bíls síns. Sjónin hafi tekið á marga sem að slysstað komu. „Það voru grátandi börn allt í kring og fólki var almennt mjög brugðið enda var útlitið ekki gott,“ segir Reynir en betur fór þó en á horfðist og voru meiðsli farþeganna minniháttar. Bæklunarlæknir sem var á ferðalagi um Norðurland var einn af þeim fyrstu sem kom að vettvangi slyssins og gat hann hlúð að þeim slösuðu allt frá fyrstu mínútu.

Umferð hefur nú færst í eðlilegt horf en ekki er enn vitað um tildrög slyssins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×