Íslenski boltinn

Slysið á Þórsvelli: Aðkoman var óhugnanleg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Lögreglan og sjúkraflutningamenn voru fljótir á staðinn í gærkvöldi.
Lögreglan og sjúkraflutningamenn voru fljótir á staðinn í gærkvöldi. mynd/jyj
„Þetta var eins furðulegt slys og þau verða,“ segir Andri Daði Aðalsteinsson, stuðningsmaður FH, í samtali við Vísi um atvikið á Þórsvellinum í gær þar sem stuðningsmaður Hafnafjarðarliðsins féll niður úr stúkunni og lenti á andlitinu.

Stúkan á Þórsvelli er í nokkurra metra hæð yfir vellinum, en þegar stuðningsmaðurinn reyndi að teygja sig yfir grindverkið féll hann til jarðar.

„Það var ekkert í gangi nema hann var að reyna að klappa fyrir FH-ingunum sem voru að ganga til búningsherbergja. Hann teygir sig niður og á einhvern ótrúlegan hátt rennur hann yfir grindverkið. Þetta var mjög skrítið,“ segir Andri Daði.

Strákurinn sem féll hefði í raun ekki getað verið óheppnari því hann datt niður í gryfju upp við stúkuna sem bætti rúmum einum og hálfum metra við fallið.

„Aðkoman var óhugnaleg. Það var mikið blóð og hann lá hreyfingarlaus. Þetta hefði samt getað endað verr því fallið var helvíti hart. Sjúkraþjálfarar beggja liða voru fljótir til og svo kom lögreglan og sjúkrabíll mjög fljótt á staðinn,“ segir Andri Daði, en keppst var við að halda börnum á vellinum frá slysinu.

Eftir leik fóru FH-ingarnar allir sem gerðu sér ferð norður upp á sjúkrahús til að fá fregnir af þeim slasaða.

„Við fengum ekki að hitta hann, en læknir þarna gaf okkur upplýsingar. Við vissum bara að hann átti að fara í sjúkraflug ef til þess kæmi, en annars að hann væri ekki í lífshættu, sem var gott að heyra,“ segir Andri Daði Aðalsteinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×