Innlent

Slydda, snjókoma og norðanátt í kortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ekki er víst að ferðalög um fjallvegi gangi snuðrulaust fyrir sig norðvestanlands á morgun.
Ekki er víst að ferðalög um fjallvegi gangi snuðrulaust fyrir sig norðvestanlands á morgun. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan spáir rigningu, slyddu eða snjókomu með köflum austan-og norðanlands í dag sem og á Vestfjörðum, en úrkomulítið verður þurrt að kalla auk þess sem þar mun sjást eitthvað til sólar, að því er fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.

Á morgun mun síðan bæta í vind og verður allhvasst norðvestanlands. Með vindinum fylgir slydda eða snjókoma og ekki er víst að ferðalög um fjallvegi gangi snuðrulaust fyrir sig á þessum slóðum. Sunnan-og austanlands verður hægari vindur og lítil eða engin úrkoma.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir svo:

„Nú er sauðburður ýmist hafinn eða að hefjast og því margir sem vonast eftir að mildara loft fari að leika um landið. Enn er til að mynda þónokkur snjór um landið norðaustanvert. Því miður virðist ekki ætla að verða af komu hlýs lofts í vikunni, því norðanáttin virðist ætla að vera allsráðandi alveg fram á laugardag. Henni fylgir svalviðri og úrkoma verður þrálát á norðurhelmingi landins.“

Veðurhorfur næstu daga eru annars eftirfarandi:

Í dag:

Norðan 5-13 metrar á sekúndu. Rigning, slydda eða snjókoma með köflum, en úrkomulítið um landið sunnanvert. Norðvestan og vestan 10-18 metra á sekúnd á morgun, hvassast norðvestan til. Þurrt að kalla sunnan- og austanlands, annars slydda eða snjókoma, sums staðar talsverð norðvestanlands. Hiti frá frostmarki í innsveitum á Norðausturlandi, upp í 10 stig á Suðausturlandi. Lítið eitt kaldara á morgun.

Á þriðjudag:

Norðvestan og vestan 10-18 metrar á sekúndu, hvassast um landið norðvestanvert. Þurrt að kalla sunnan- og austanlands, annars rigning, slydda eða snjókoma, einkum norðvestantil. Dregur úr vindi og úrkomu um kvöldið. Hiti um eða rétt yfir frostmarki norðvestanlands, en allt að 8 stig á Suðausturlandi.

Á miðvikudag:

Norðan 5-15 metrar á sekúndu,  hvassast norðvestanlands. Slydda eða rigning með köflum og hiti 0 til 4 stig, en bjart syðra og hiti 4 til 9 stig.

Á fimmtudag og föstudag:

Ákveðin norðan- og norðvestanátt með rigningu, slyddu eða snjókomu norðantil, en þurrt sunnanlands. Hiti breytist lítið.

Á laugardag:

Breytileg átt 3-8 metrar á sekúndu og bjart með köflum, en stöku él á norðausturhorninu framan af degi. Hiti 2 til 9 stig, mildast sunnan heiða.

Á sunnudag:

Austlæg átt og dálítil væta sunnan- og austanlands, en þurrt annars staðar. Hiti víða 3 til 8 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×