Handbolti

Slóvenar gáfu okkur tvö síðustu mörkin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverre og Arnór í baráttunni í dag.
Sverre og Arnór í baráttunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Þótt ótrúlega megi virðast fengum við tvö síðustu mörk leiksins í gjöf frá slóvenska landsliðinu. Það gerðu þeir til að senda íslenska landsliðið ekki úr leik.

Slóvenía vann að lokum tveggja marka sigur, 34-32. Ef Slóvenía hefði unnið fjögurra marka sigur hefði Ísland verið úr leik - óháð því hvernig leikur Króatíu og Noregs fer á eftir.

Nú kemur að flókna hlutanum. Slóvenía fer með þau stig með sér í milliriðlana sem liðið vann sér gegn liðum sem komast einnig áfram. Slóvenía tapaði fyrir Noregi sem þýðir að ef Noregur kemst áfram - þá fer Slóvenía áfram með núll stig.

Ef hins vegar Ísland kemst áfram fara Slóvenar áfram með tvö stigin sem þeir unnu sér inn í kvöld.

Það var augljóst á spilamennsku Slóvena og látbragði þeirra að þeir ætluðu sér að leyfa Íslandi að skora á lokamínútu leiksins. Norðmenn eru væntanlega æfir vegna þessa og munu sjálfsagt gera meira mál úr þessu.

Ísland, Slóvenía og Noregur eru öll með tvö stig. Þá ræðst það af innbyrðisviðureignum liðanna hvaða tvö lið fara áfram með Króatíu. Þar sem liðin eru jöfn að stigum ræðst það af markatölu. Svona er staðan í henni.

2. Slóvenía +1

3. Ísland 0

4. Noregur -1

Nú þurfa hins vegar Norðmenn að koma sér upp úr þessum hópi og það gera þeir með því að ná sér í stig í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×