Innlent

Slökkviliðsmenn unnu í veðurlottóinu í Grindavík

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi í Grindavík í nótt.
Frá vettvangi í Grindavík í nótt. Vísir/Jóhann K. Jóhannsson
Slökkviliðið í Grindavík hefur lokið störfum eftir þrettán tíma vinnu við að ráða niðurlögum elds sem kviknaði í fiskvinnsluhúsinu Mölvík í Grindavík seint í gærkvöldi. Slökkviliðsstjóri segir mikla heppni að veður hafi verið gott við slökkvistörf. Tjón sé þó mikið.

Fiskvinnusluhúsið, sem er í eigu Stakkavíkur, er staðsett á hafnarsvæðinu í Grindavík. Slökkvilið bæjarins ásamt aðstoðarmönnum frá Brunavörnum Suðurnesja og björgunarsveitum Landsbjargar börðust við eldinn utanfrá. Húsið er byggt úr strengjasteypubitum, sem getur verið stórhættuleg ef hún hitnar mikið og vírar slitna.

„Við höfum sennilega verið mest þrjátíu og þar af vorum við með menn úr björgunarsveitum,“ sagði Ásmundur Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, við fréttastofu á vettvangi í nótt.





Slökkviliðsmenn rufu meðal annars þakið til að komast að eldinum og náðu að verja hluta hússins.

„Það logaði vel upp úr þakinu og við náðum strax að slá á það. Við sáum strax að það væri ekki heimilt að fara inn í þann hluta hússins þar sem eldurinn var.“

Engan sakaði þrátt fyrir hættulegar aðstæður. Eldsupptök eru ókunn, en lögregla rannsakar nú málið. Ásmundur telur að um mikið tjón sé að ræða en verr hefði getað farið.

„Það er lottó hjá okkur að fá svona veður. Hefði verið vindur hefði verið lítið hægt að ráða við þetta.“

Viðtal við Ásmund má sjá í spilaranum að ofan auk myndefnis frá vettvangi í albúmi hér að neðan.


Tengdar fréttir

Eldsvoði í Grindavík í nótt

Mikið tjón varð í eldsvoða í Grindavík í nótt þegar eldur kviknaði í fiskvinnsluhúsi Stakkavíkur á hafnarsvæðinu á tólfta tímanum í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×