Lífið

Slökkviliðsmenn blésu lífi í hund

Samúel Karl Ólason skrifar
Vitni tók myndband af atvikinu þegar Nalu byrjaði að jafna sig.
Vitni tók myndband af atvikinu þegar Nalu byrjaði að jafna sig.
Slökkviliðsmenn í Kaliforníu vörðu 20 mínútum í að blása lífi í hund sem þeir björguðu úr brennandi byggingu. Mennirnir hafa verið kallaðir hetjur í kjölfarið. Eigandi hundsins Nalu, hún Crystal Lamirande, kom að íbúð sinni þar sem eldur hafði kviknað og reyndi að komast inn til að sækja hundinn, sem er tíu ára gamall.

Hún þurfti þó frá að hverfa vegna mikils reyks. Skömmu seinna fóru slökkviliðsmenn inn á eftir Nalu og fundu hann meðvitundarlausan í svefnherbergi íbúðarinnar.

Slökkviliðsmaðurinn Andrew Klein sagði Nalu hafa litið út eins og hann væri dáinn, en Klein hljóp með hann út þar sem hann vissi að hver sekúnda skipti máli. Í samtali við AP fréttaveituna sagði hann að ekki hefði komið til greina að hundurinn dræpist.

Klein og annar slökkviliðsmaður vörðu næstu tuttugu mínútum í að lífga hundinn við, með hjartahnoði, súrefni og „munn við trýni“ aðferðinni. Vitni tók myndband af atvikinu þegar Nalu byrjaði að jafna sig.

Lamirande segir að hún hefði ekki trúað því hvað þeir lögðu mikið í að bjarga Nalu. Hún gerði ráð fyrir því að hann væri dauður, en slökkviliðsmaðurinn sagði henni að hann væri bjartsýnn og það væri ekkert annað að gera en að ná Nalu til baka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×