Innlent

Slökkviliðið fær ekki meiri peninga

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Slökkviliðsmenn segja álagið vegna manneklu skapa hættu en stjórnarformaðurinn treystir að öryggi sé tryggt.
Slökkviliðsmenn segja álagið vegna manneklu skapa hættu en stjórnarformaðurinn treystir að öryggi sé tryggt. Vísir/Stefán
„Slökkviliðsstjórinn fór vel yfir þetta með okkur á fundinum og sagði að hann hefði ekki gripið til þessara breytinga án þess að vera fullviss um að öryggi verði tryggt,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, sem er stjórnarformaður slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.

Nýtt skipulag, sem felst í færri mönnum á vöktum í sumar, var kynnt stjórninni í fyrradag en Fréttablaðið hefur síðustu daga viðrað áhyggjur slökkviliðsmanna vegna manneklu og vanbúnaðs slökkviliðsins.

„Stjórnin tekur þessar áhyggjur mjög alvarlega og ákvað því að láta vinna áhættumat á þessu nýja skipulagi,“ segir Dagur, en ekki er á döfinni að auka fjármagn til slökkviliðsins og bendir Dagur á í því samhengi að ekki megi gleyma nýrri stöð sem opnuð var nýlega og að slökkviliðsmönnum hafi fjölgað um fjórtán í fyrra.

Heimildarmaður Fréttablaðsins innan slökkviliðsins bendir aftur á móti á að nýju starfsmennirnir hafi rétt svo náð upp í starfsmannaveltu og á sama tíma hafi sjúkraflutningum fjölgað gífurlega. Þá skjóti skökku við að byggja nýja stöð fyrir um milljarð sem hýsi eingöngu tvo menn og það vanti allan búnað þar til að bregðast við eldsvoða. Segir heimildarmaðurinn þetta lýsa vel því óskipulagi sem ríki innan slökkviliðsins.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 24. júní




Fleiri fréttir

Sjá meira


×