Innlent

Slökkviliðið enn að störfum á Grettisgötu en eldurinn hefur verið slökktur

Frá slökkvistarfi í gærkvöldi.
Frá slökkvistarfi í gærkvöldi. Vísir/Anton
Hópur slökkviliðsmanna af höfuðborgarsvæðinu er enn á vettvangi brunans, sem varð í stóru iðnaðarhúsi við Grettisgötu 87 í Reykjavík í gærkvöldi. Eldsins varð vart upp úr klukkan átta og þar sem vitað var um hættuleg efni í húsinu var íbúum í grenndinni ráðlagt að halda sig innandyra og að loka öllum gluggum.

Sumir yfirgáfu heimili sín og leituðu til ættingja eða hópuðust saman í strætisvögnum, þar sem fólk úr viðbragðsteymi Rauða krossins tók við því.

Allt tiltækt slökkvilið á vakt og á frívakt var kallað út og tóku um 90 manns þátt í slökkvistarfinu þegar mest var, og var nærliggjandi götum lokað. Milligólf og þak hússins eru úr strengjasteypu, sem getur skroppið saman í miklum hita, þannig að ekki var óhætt að senda slökkviliðsmenn inn í húsið vegna hættu á hruni.

Um klukkan fjögur í nótt var fækkað verulega í liðinu, enda var þá búið að ráða niðurlögum eldsins, en vaktin núna hugar að glæðum og er til taks ef eldur tekur sig aftur upp.

Enginn nágranni þurfti að leita á slysadeild vegna reykeitrunar, og engan slökkviliðsmann sakaði þrátt fyrir hættulegar aðstæður.

Eldsupptök eru ókunn, enda er ekki óhætt að hefja rannsókn í húsinu strax. MBL.is greindi frá því í gærkvöldi að lögreglan leitaði tveggja manna, sem sáust yfirgefa húsið skömmu áður en eldurinn kom upp, en ekki næst samband við lögregluna til að fá það staðfest.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×