Erlent

Slökkt á MSN eftir tvo mánuði

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Samskiptaforrit Microsoft, Windows Live Messenger, verður ekki aðgengilegt frá og með 15. mars næstkomandi.

Forritinu, sem gekk fyrst undir nafninu MSN Messenger, var komið á laggirnar í júlí 1999. Það varð á örskotsstund að vinsælasta samskiptaforritinu á veraldarvefnum með hundruð milljón notenda um heim allan.

Samkeppnin á markaðnum hefur aukist verulega undanfarin ár með tilkomu spjallsins á Facebook og Google auk Skype og iMessage svo helstu dæmi séu nefnd. MSN hefur orðið undir í samkeppninni og með kaupum Microsoft á Skype frá eBay í maí 2011 varð ljóst að dagar MSN yrðu senn taldir. Microsoft staðfesti það í nóvember síðstliðnum.

Microsoft vonast til þess að notendur MSN snúi sér í auknum mæli til Skype. Í þeim tilgangi hafa þeir reynt að gera skiptin sem þægilegust. Áttu notendur að geta skipt úr MSN yfir í Skype með því að smella á einn hnapp. Til eru dæmi þess að það hafi ekki gengið snurðulaust fyrir sig að því er Independent greinir frá.

Notendur MSN ættu því að vista alla tengiliði sína til vonar og vara fyrir 15. mars. Ekki verður hægt að skrá sig inn á Windows Live Messenger frá og með þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×