Viðskipti innlent

Slitlagið lengist inn á óbyggðir Íslands

Kristján Már Unnarsson skrifar
Einn lengsti slitlagskaflinn, sem bæst hefur við vegakerfið á undanförnum árum, er í óbyggðum og liggur meðfram Heklu. Hann er á Landvegi, ofan efstu bæja í Rangárvallasýslu og þarna eru nú komnir samtals þrettán kílómetrar af nýju slitlagi. 

Í sumar var lagt á fimm kílómetra kafla milli Þjófafossvegar og Landmannaleiðar, sem bættist við átta kílómetra kafla frá Galtalækjarskógi, sem lagður var fyrir þremur árum. 

Bundnu slitlagi er yfirleitt fagnað hvar sem það kemur á malarvegi. Þar með dregur úr hávaðaskrölti í bílum, þjóðvegarykið minnkar, vegfarendur upplifa minni hljóðmengun, minni rykmengun og vegna minna viðnáms kostar aksturinn minni bensíneyðslu og minni útblástur. 

Það er þó ekki víst að malbik á þessum stað kæti alla því hér erum við komin upp í óbyggðir. Hér eru jeppar algengustu farartækin, á 38 tommu dekkjum ef ekki stærri, enda flestir sem hér aka um á leið í hálendisperlur eins og Landamannalaugar og Veiðivötn.

Lengsta bundna slitlagið á hálendinu sunnan jökla er á Sprengisandsleið, milli Sultartanga og Vatnsfellsvirkjunar. Nýjasti malbikskaflinn á Landvegi, 13 kílómetrar, sést neðst til vinstri. Þá vantar aðra 13 kílómetra til að tengja slitlagskaflana saman og mynda malbikaða hringleið inn á hálendið
Margir eru andsnúnir því að bundið slitlagt sé lagt á hálendisvegi. Hér virðast þó engir hafa hreyft andmælum, en þess má geta að áður var komið slitlag ennþá ofar, á kafla Sprengisandsleiðar milli Sultartanga og Vatnsfellsvirkjunar. Bæta þarf þrettán kílómetrum til viðbótar á Landveg til að komin verði malbikuð hringleið inn á hálendið, um brúna við Sultartangavirkjun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×