Viðskipti innlent

Slitabú Kaupþings leitar að erlendum banka til að skrá Arion í kauphöll

Hafliði Helgason skrifar
Slitabú Kaupþings leitar erlends banka til að sjá um skráningu í erlenda kauphöll.
Slitabú Kaupþings leitar erlends banka til að sjá um skráningu í erlenda kauphöll. Vísir/Stefán
Slitabú Kaupþings leitar erlends banka til að sjá um skráningu Arion banka í erlenda kauphöll samhliða skráningu hér á landi. Þetta hefur fréttastofan Reuters eftir heimildum sínum.

Fram hefur komið að Arion banki stefnir að hlutafjárútboði og skráningu í kjölfarið á fyrri hluta næsta árs. Líklegt er að bankinn leiti tvíhliða skráningar, bæði hér og í erlendri kauphöll. Talið er að Stokkhólmur verði fyrir valinu sem erlend kauphöll.

Samkvæmt Reuters hafa fjárfestingarbankarnir Citi og Morgan Stanley unnið sem ráðgjafar við undirbúningsvinnuna. En samkvæmt frétt Reuters er nú leitað að banka til að sjá um skráninguna sjálfa.

Samkvæmt fréttinni er virði Arion áætlað um 190 milljarðar króna sem eru 90 prósent af eigin fé bankans. Það er hærri fjárhæð en heimildir Fréttablaðsins herma sem segja að virðið gæti legið nær 150 milljörðum króna.

Í frétt Reuters er sagt að erlend skráning gæti orðið mikilvægur prófsteinn á það hvort erlendir fjárfestar séu á ný tilbúnir að taka áhættu af íslenska hagkerfinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×