Innlent

Sleipiefnaþjófurinn snýr aftur

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þjófurinn lét greipar sópa í sleipiefnadeild Akureyrarapóteks.
Þjófurinn lét greipar sópa í sleipiefnadeild Akureyrarapóteks. Mynd/Akureyrarapótek
Lyfjafræðingur á Akureyri hefur sent lögreglunni myndir af manni sem hefur í tvígang stolið úr Akureyrarapóteki á undanförnum tveimur vikum. Maðurinn var síðast að verki í gær og sást hann þá hnupla smokkapakka úr hillum apóteksins, en fyrir tveimur vikum stal hann sleipiefni.

Að sögn Gauta Einarssonar, lyfjafræðings hjá Akureyrarapóteki, sést á myndbandsupptökum að þetta er sami maðurinn. Gauti segir að sleipiefni hafi einnig horfið úr hillunni í gær en það sést ekki til mannsins stela því á upptökunni sem Gauti hefur nú sent lögreglunni.

Málið hefur vakið athygli á Akureyri. Á vefnum Akureyri.net er til dæmis vitnað í skrif Gauta á Facebook, þar sem hann segir:

„À èg að segja ykkur? Haldið ekki að sleipiefnabófinn hafi látið á sér kræla að nýju akkúrat 2 vikum eftir síðasta áhlaup. En hann rann mér sem fyrr úr greipum. Það gerir ein vika per brúsa sem verður að teljast nokkuð gott hjá honum. Samstarfskonur mínar eru allar komnar með Stokkhólmsheilkennið og finnst ég bara ómenni að vilja góma hann. En ég skal ná í “skottið” á honum þótt síðar verði,“ og bætti við:

„Það hefði óneitanlega getað boðið upp á makleg málagjöld ef hann hefði svo ruglast og hnuplað tannlíminu.“

Kannast ekki við þjófinn

Í samtali við Vísi segist Gauti ekki kannast við þjófinn. „Nei, ef ég hefði þekkt hann hefði ég haft samband við hann og boðið honum að koma og greiða fyrir vöruna. En þar sem ég þekkti hann ekki sendi ég gögnin til lögreglunnar.“

Eins og sjá má á skrifum Gauta á Facebook lítur hann vissulega á spaugilegu hliðar málsins. En hefur samt sem áður haft samband við lögregluna. „Já, maður vill ekki láta stela af sér. Maður nennir ekki að hafa þetta áframhaldandi.“

Gauti segist ekki geta fullyrt um ástæður þess að þjófurinn lætur til skarar skríða; Hvort að hann hafi ekki efni á sleipiefninu eða skammist sín fyrir að kaupa það. „Ég get með engu móti fullyrt um það. En þetta kostar nú ekki mikið, ég get ekki ímyndað mér að verðið skipti máli.“

Að sögn Gauta sést þjófurinn ekki taka sleipiefni nú í seinna skiptið sem hann lét greipar sópa í apótekinu. En samt hafi ein túba af sleipiefni horfið í gær. Hún hafi verið af annarri tegund en þjófurinn sást taka á myndbandsupptökunni fyrir tveimur vikum. „Ef sleipiefni hvarf fyrir tilstuðlan þjófsins, þá er greinilegt að hann er eitthvað að prófa sig áfram, að prófa nýjar tegundir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×