Handbolti

Slegist um viðtöl við Ólaf sem fékk konunglega móttöku | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna meistaratitlinum í Danmörku 2010.
Ólafur Stefánsson og Arnór Atlason fagna meistaratitlinum í Danmörku 2010. vísir/epa
Ólafur Stefánsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði í handbolta, mætti á æfingu hjá Danmerkurmeisturum KIF Kolding Köbenhavn í dag.

Eins og kom fram á miðvikudaginn reif Ólafur skóna fram úr hillunni og æfir með dönsku meisturunum næstu daga. Takmarkið er að hann spili tvo leiki gegn Zagreb í Meistaradeildinni, en KIF er í miklum meiðslavandræðum.

Ólafur fékk konunglega móttöku á æfingunni í dag þar sem hann hitti gamla vini og liðsfélaga. Hann faðmaði t.a.m. Kasper Hvidt, fyrrverandi danska landsliðsmarkvörðinn, vel og innilega.

Þeir spiluðu saman hjá AG Kaupmannahöfn áður en það fór í þrot og sameinaðist KIF Kolding. Undir stjórn Arons Kristjánssonar varð liðið deildar- og bikarmeistari á síðustu leiktíð.

„Velkominn Ólafur. Það gleður okkur mikið að fá að fylgjast með þér á æfingum næstu daga,“ segir á Facebook-síðu KIF.

KIF notar svo kassmerkið #velkommenolafur en svo er spurning hvort hann verði kvaddur með #takolafur eins og Íslendingar þökkuðu honum fyrir með kassmerkinu #takkóli.

Því er svo bætt við á Facebook-síðu KIF Kolding Köbenhavn að slegist hafi verið um viðtöl við Ólaf eftir æfinguna. Almennt sé mikil spenna fyrir því að sjá hann aftur í Alþjóðlegum handbolta.

Það má sjá Óla mæta á æfingu í „tásuskónum“ hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×