Innlent

Slagsmál og fíkniefni á Þjóðhátíð

Snærós Sindradóttir skrifar
Þessi lögreglumaður fylgdist vel með gestum í Vestmannaeyjum.
Þessi lögreglumaður fylgdist vel með gestum í Vestmannaeyjum. vísir/vilhelm
Karl skallaði konu í andlitið á Þjóðhátíð í Eyjum og var handtekinn í kjölfarið. Maðurinn og konan þekktust en ekki hefur verið lögð fram kæra í málinu.

Þetta var eitt þeirra fjölmörgu lögreglumála sem komu upp í Vestmannaeyjum um helgina, þegar um fimmtán þúsund manns komu saman til að skemmta sér. Lögregla greinir frá því að sjötíu fíkniefnamál hafi komið upp. „Langmest var tekið af amfetamíni og kókaíni og mun minna af kannabisefnum en á öðrum hátíðum,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Mikil áhersla var lögð á fíkniefnaleit en lögreglustjórinn í Vestmannaeyjum, Páley Borgþórsdóttir, tók þá ákvörðun fyrir helgi að upplýsa ekki um kynferðisbrot og sagði í samtali við DV: „Að mínu mati varðar mál líkt og fíkniefnamál meira við almannahagsmuni.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri gekk helgin vel. Þar fór fram hátíðin Ein með öllu eins og undanfarin ár. Ekki hefur verið tekið saman hvort og hve mörg fíkniefnamál hafi komið upp. Von er á upplýsingum um það síðar í dag.

Á Neskaupstað, þar sem Neistaflug var haldið, komu engin fíkniefnamál upp og engar líkamsárásir. Enginn gisti fangageymslu. Lögreglumaður á vakt sagði í samtali við Fréttablaðið að helgin hefði verið rólegri en margar aðrar hefðbundnari helgar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×