Enski boltinn

Slær Arsenal metið?

Arsenal vann Aston Villa 5-0 í febrúar þar sem Theo Walcott skoraði eitt markanna.
Arsenal vann Aston Villa 5-0 í febrúar þar sem Theo Walcott skoraði eitt markanna. vísir/getty
Arsenal og Aston Villa mætast í dag í úrslitum ensku bikarkeppninnar á Wembley. Með sigri getur Arsenal unnið bikarinn í tólfta sinn, eitthvað sem engu öðru liði hefur tekist.

Arsene Wenger hefur stýrt Arsenal fimm sinnum til sigurs í bikarkeppninni ensku, jafnoft og Sir Alex Ferguson gerði með Manchester United á sínum tíma. Wenger segir að það verði erfitt að ná tólfta bikarmeistaratitlinum.

"Það væri frábært að slá metið en í hreinskilni sagt, þá er ég ekki að hugsa mikið um það. Ég einbeiti mér eingöngu að því hver mikið við höfum lagt á okkur við að komast í úrslitaleikinn. Núna viljum við klára verkið. Ég reyni alltaf að haga mér eins fyrir stóra leiki. Og finn alltaf fyrir mikilli pressu," segir Wenger.

Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Aston Villa, segir að sitt lið sé ekki mætt til leiks eingöngu til að vera skotmark fyrir Arsenal.

"Arsenal er ríkjandi bikarmeistari og þetta verður erfiður leikur. En við erum ekki eingöngu mættir til að fylla upp í leikskýrsluna, við ætlum að gera þeim lífið leitt. Mínir strákar stóðu sig vel á stóra sviðinu gegn Liverpool [í undanúrslitum] og við áttum skilið að vinna þann leik. Vonandi náum við að gera það sama gegn Arsenal," segir Sherwood.

Leikurinn hefst kl. 16:30 og verður í beinni á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×