Innlent

Slæmur gjaldstofn til að fjármagna útgjöld

Sveinn Arnarsson skrifar
Björgúlfur Jóhannsson Formaður SA.
Björgúlfur Jóhannsson Formaður SA.
Samtök atvinnulífsins gagnrýna stefnu stjórnvalda að taka til sín sífellt stærri hluta af tryggingagjaldi sem lagt er á öll greidd laun í landinu.

Frá árinu 2008 hefur þessi skattur hækkað um rúm 3 prósent af launum. Frá síðustu alþingiskosningum er hækkun gjaldsins um níu milljarðar króna á ári.

Björgólfur Jóhannsson, formaður SA, telur stjórnvöld ekki standa við gefið loforð í þessum efnum.

„Atvinnulífið tók á sig verulega ábyrgð í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Þá tók atvinnulífið á sig hækkun tryggingagjalds vegna aukins atvinnuleysis. Það var þá gert með loforði þáverandi stjórnvalda um að þessi gjöld myndu lækka þegar kæmi til lækkandi atvinnuleysis. Nú er raunin að atvinnuleysi mælist mjög lágt og því ætti tryggingagjald að lækka í samræmi við það. Við það er ekki staðið, svo einfalt er það,“ segir Björgólfur.

Atvinnuleysi í nóvember var 3,1 prósent. Samanburður mælinga Hagstofunnar frá 2013 og 2014 sýnir að bæði atvinnuþátttaka og hlutfall starfandi fólks hefur aukist samhliða minnkandi atvinnuleysi. Leita þarf aftur til október 2008 til þess að finna lægra hlutfall atvinnuleysis

Að mati SA er gjaldið slæmur gjaldstofn til að fjármagna önnur útgjöld ríkisins þar sem það dregur úr styrk fyrirtækja til að ráða nýtt starfsfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×